Enski boltinn

Crouch hættur í fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Crouch lauk ferlinum með Burnley.
Crouch lauk ferlinum með Burnley. vísir/getty
Peter Crouch hefur lagt skóna á hilluna. Hann greindi frá þessu á Twitter í dag.

„Eftir langa umhugsun í sumar hef ég ákveðið að hætta. Þessi dásamlegi leikur okkar hefur gefið mér allt. Ég er svo þakklátur öllum þeim sem hjálpuðu mér að komast þangað og vera þar svona lengi,“ skrifaði Crouch.

„Ef þú hefðir sagt við þegar ég var 17 ára að ég myndi spila á HM, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, vinna ensku bikarkeppnina og skora 100 mörk í ensku úrvalsdeildinni hefði ég gert allt til að forðast þig. Þetta var draumur sem rættist.“



Crouch, sem er 38 ára lék síðast með Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Framherjinn hávaxni lék alls með ellefu félögum á ferlinum. Þá lék hann 42 landsleiki fyrir England og skorað 22 mörk.

Crouch skoraði 108 mörk í ensku úrvalsdeildinni, þar af 53 með skalla. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri skallamörk í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Mikilvægasta markið hans kom í leik Tottenham og Manchester City vorið 2010. Hann tryggði Spurs þá sæti í Meistaradeildinni.





Crouch varð bikarmeistari með Liverpool 2006 og var í silfurliði Rauða hersins í Meistaradeildinni ári seinna.

Hann var lengst af með Stoke City, eða í sjö og hálft tímabil. Besta tímabilið hans var hins vegar með Southampton 2004-05. Þá skoraði Crouch tólf mörk í ensku úrvalsdeildinni og var svo keyptur til Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×