Erlent

Framdi sjálfs­víg fyrir framan skóla­fé­laga sína vegna ein­eltis

Sylvía Hall skrifar
Frá Chertsey í Bretlandi.
Frá Chertsey í Bretlandi. Vísir/Getty
Fjórtán ára gamall breskur drengur framdi í gær sjálfsvíg með því að leggjast á lestarteina á lestarstöð í Chertsey í gær. Drengurinn hafði orðið fyrir miklu einelti í skóla og átti atvikið sér stað stuttu eftir skólatíma.

Að sögn viðstaddra rétti drengurinn samnemendum sínum eigur sínar og síma áður en hann lagðist á lestarteinanna. Þau ungmenni sem urðu vitni að atvikinu voru skelfingu lostin en eldri nemendur sem voru viðstaddir voru fljótir að bregðast við og héldu öðrum frá teinunum. Bréf sem fannst við lestarstöðina er talið vera skrifað af drengnum fyrir dauða hans.

Í samtali Daily Mail við dreng sem á vini í umræddum skóla kemur fram að drengurinn hafi alltaf virkað hamingjusamur en enginn viti „hvað sé í gangi“ hjá hverjum og einum. Atvikið sé fyrst og fremst áfall.

Móðir drengs við skólann sagði einelti vera vandamál í skólanum. Sonur hennar hafði oft séð til drengsins þar sem hann var einn á leikvellinum og þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið beittur ofbeldi var ljóst að hann væri lagður í einelti.

Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang en drengurinn var úrskurðaður látinn á staðnum.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið.



Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×