Innlent

Þrumur og eldingar í Þorlákshöfn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. vísir/getty
Íbúar og aðrir sem voru í Þorlákshöfn á þriðja tímanum í dag hafa án efa orðið varir við mikið úrhelli sem þar varð og þrumur og eldingar sem fylgdu rigningunni.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur, sagði í samtali við Vísi skömmu fyrir klukkan þrjú að níu eldingar hefðu mælst og það allar rétt vestan við Þorlákshöfn. Fyrsta eldingin hefði mælst klukkan 14:09 og sú síðasta klukkan 14:40.

„Það er samkvæmt kerfinu og það er ekki óskeikult. Stundum missir það af eldingum sem hafa verið en ef það hafa mælst þá er það góð staðfesting á að það hafi verið. Og þær eru allar þarna á sama staðnum í hnapp rétt vestan við Þorlákshöfn.

Þetta er eiginlega bara svolítið það sem maður átti von á, þetta er í nágrenni við Hellisheiðina og þetta er alltaf spurning hvar þær verða,“ segir Óli Þór og heldur áfram:

„Það eru myndarlegir bólstrar hér og þar í kringum okkur og þeir hafa allir möguleika en þó eru aðstæðurnar ekkert frábærar til að ná í eldingar en það dugar greinilega þarna við Þorlákshöfn.“

Óli Þór segir að þetta geti staðið eitthvað fram yfir kvöldmat en svo er það búið í bili.

Jón Karl Jónsson var staddur í Þorlákshöfn í dag og náði þessum myndböndum af þrumunum og eldingunum.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×