Innlent

Segir ályktunina skorta víðtækan stuðning

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Fundur Birgis og stuðningsmanna Duterte.
Fundur Birgis og stuðningsmanna Duterte. fréttablaðið/Valli.

Í gær funduðu stuðningsmenn Duterte, forseta á Filippseyjum, með Birgi Þórarinssyni, þingmanni Miðflokksins. Fundurinn fór fram í skrifstofuhúsnæði Alþingis en auk Birgis voru þar á bilinu 20 til 30 Filippseyingar á öllum aldri.

Fyrir hópnum fór Sherry Ruth Buot sem sagði Birgi frá sjónarmiðum hópsins. „Við vorum að upplýsa Birgi um raunverulegt ástand á Filippseyjum og við treystum honum til að fara með þetta til Alþingis,“ sagði Sherry.

Talsmenn hópsins voru hikandi að ræða við Fréttablaðið en á fundinum sögðu þau að ástandið á Filippseyjum væri gjörbreytt. Friður ríkti fyrir eiturlyfjabarónum og loksins þyrftu stórfyrirtæki að borga skatta.

Birgir er sá þingmaður sem lýst hefur mestum efasemdum um ályktun Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

„Ég var beðinn að hitta þetta fólk sem ég og gerði. Það var að færa mér upplýsingar og lýsa yfir óánægju með ályktun Íslands,“ sagði Birgir.

Hvað varðar ályktunina sjálfa segir Birgir að hann hafi viljað stíga varlega til jarðar.

„Mér sýnist að þetta hafi ekki verið nógu vel undirbúið og skýri það með því að hún var samþykkt mjög naumlega. Hún hafði ekki víðtækan stuðning eins og utanríkisráðherra hélt fram. Við hefðum frekar átt að hafa samtal við stjórnvöld í Filippseyjum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×