Innlent

Eðlilegt verð segir borgin

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Húsið kostar borgina 230 milljónir króna.
Húsið kostar borgina 230 milljónir króna. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
„Kaupverðið er eðlilegt og ráða því nokkrir þættir sem umræddur fasteignasali tók ekki með í reikninginn,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, í svari við fyrirspurn um kaup borgarinnar á fasteigninni Hringbraut 79. Kaupverðið er 230 milljónir króna auk þess sem setja þarf fimm milljónir í aðlögun húsnæðisins að fyrirhugaðri notkun. Húsnæðið er ætlað velferðarsviði borgarinnar og verður íbúðakjarni fyrir konur með geðfötlun og fjölþættan vanda.

Húsið er 395,3 fermetrar og samanstendur af tveimur íbúðum og bílskúrum. Íbúðirnar skipast í sjö íbúðaeiningar sem allar eru með eldhúsinnréttingu og baðherbergi.

Fasteignasalinn Páll Pálsson fjallaði um kaupin á Facebook-síðu sinni Fasteignafréttir og velti upp þeirri spurningu hvort um góð kaup væri að ræða fyrir borgina. Fermetraverðið væri 580 þúsund krónur en meðalfermetraverðið á sambærilegum eignum væri nær 490 þúsund.

Bjarni bendir á að ásett verð hafi verið 280 milljónir, verðmat 240 milljónir en borgin keypt á 230 milljónir með búnaði, sem sé líklega um 10 milljóna króna virði.

„Þá má líta til þess í svona viðskiptum að húseignin er nýuppgerð að utan sem innan,“ segir Bjarni.

„Litlu eða engu þarf að breyta til að skjólstæðingar borgarinnar geti flutt beint inn. Þetta skýrir verðið sem borgin greiðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×