Innlent

Kynnir áform um einkaframkvæmdir

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Tveir valkostir Sundabrautar að mati starfshóps.
Tveir valkostir Sundabrautar að mati starfshóps. stjórnarráðið
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur kynnt drög að lagasetningu um aðkomu einkaaðila að framkvæmdum við Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Drög að frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær sem gerir ráð fyrir heimild til að bjóða tilteknar framkvæmdir út sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila. Miðað er við að lögin taki til brúar yfir Ölfusá, brúar yfir Hornafjarðarfljót, Axarveg, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabrautar.

Miðað er við að umrædd verkefni yrðu meðal annars fjármögnuð með gjaldtöku en þó um takmarkaðan tíma. Að þeim tíma liðnum félli gjaldtaka niður. Samkvæmt frumvarpsdrögunum mun ábyrgð einkaaðila ná til fjármögnunar verkefnisins, í heild eða að hluta, framkvæmdarinnar sjálfrar auk reksturs og viðhalds samgöngumannvirkjanna. Þá er kveðið á um að í lok samningstíma færist eignarhald innviða yfir til ríkisins.

Ráðherra hyggst leggja frumvarpið fram á komandi haustþingi.

Ráðherra kynnti einnig í gær skýrslu starfshóps um Sundabraut. Í niðurstöðum hópsins eru tveir valkostir taldir koma til greina; jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×