Innlent

Nýja brúin yfir Jökulsá í Lóni tilbúin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nýja brúin yfir Jökulsá í Lóni.
Nýja brúin yfir Jökulsá í Lóni. Vegagerðin
Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í Vík hefur lokið við smíði göngubrúar yfir Jökulsá í Lóni. Brúin eyðilagðist í aftakaveðri um síðustu áramót. Mikilvægt þótti að ráðast strax í smíði nýrrar brúar enda eru hún mikilvæg fyrir ferða- og göngufólk sem er á ferðinni um Lónsöræfi. Áin getur verið hættuleg á sumrin þeim sem reyna að vaða hana á leið inn að Múlaskála.

Fjallað er um nýju brúna á vef Vegagerðarinnar. Þar segir Sveinn Þórðarson brúarsmiður að smíðin hafi gengið mjög vel en nokkrar tafir orðið vegna vinds.

„Allur búnaður til brúarsmíðinnar var fluttur með stórum ökutækjum sem óku upp með ánni en það er eina færa leiðin að brúarstæðinu. Hins vegar er aðeins hægt að aka upp ána þegar mjög lítið er í henni. Vegna mikilla hita lokaðist sú leið fyrr en ætlað var. „Vinnubrúin okkar og dálítið af verkfærum eru því enn upp við brúnna. Vinnubrúnna þurfum við að draga upp á land í vikunni og geyma fram að hausti, en verkfærin munum við ferja í bakpokum klukkutíma leið að Illakambi,“ segir Sveinn.

Gangan er á köflum illfær og brött en hún er um 2,5 kílómetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×