Erlent

Telja eldinn hafa komið upp í rafhlöðurými kafbátsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Pútín forseti í Severomorsk-flotastöðinni í Múrmansk árið 2014. Kafbáturinn er sagður kominn þangað.
Pútín forseti í Severomorsk-flotastöðinni í Múrmansk árið 2014. Kafbáturinn er sagður kominn þangað. Vísir/EPA
Rússnesk yfirvöld segja að eldurinn sem varð fjórtán mönnum úr áhöfn kafbáts að bana á mánudag hafi komið upp í rafhlöðurými um borð. Þau hafa nú í fyrsta skipti viðurkennt að kafbáturinn hafi verið kjarnorkuknúinn en fullyrða að kjarnaofninn hafi ekki komist í tæri við eldinn.

Takmarkaðar upplýsingar hafa verið gefnar upp um kafbátinn og áhöfnina sem fórst. Eldurinn kom upp á mánudag en rússnesk stjórnvöld opinberuðu ekki um að sjóliðar hefðu látið lífið fyrr en daginn eftir. Margir úr áhöfninni létust af völdum eiturgufa frá eldinum.

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að kafbáturinn hafi verið háleynilegur herkafbátur. Báturinn er kominn til hafnar í Severomorsk, bækistöðvum rússneska flotans í norðurhöfum í Múrmansk. Ekki hefur verið greint frá nafni hans.

„Kjarnorkueiningin um borð í bátnum var einangruð að fullu og enginn er í þeim hluta. Áhöfnin greip til allra nauðsynlegra ráðstafana til að verja eininguna og hún er fyllilega í starfhæfu ástandi. Þetta fær okkur til að vona að hægt verði að koma bátnum aftur í þjónustu innan skamms,“ sagði Shoigu við Vladímír Pútín forseta, að sögn stjórnvalda í Kreml.

Áhöfnin hefur nú verið nafngreind en margir úr henni höfðu háa tign í sjóhernum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sjóliðarnir voru allir frá Peterhof við Pétursborg. Einhverjir úr áhöfninni eru sagðir hafa lifað af. Yfirvöld hafa ekki greint frá því hversu margir.

Rússneskir fjölmiðlar halda því fram að kafbáturinn hafi verið af gerðinni AS-31 sem gjarnan er nefndur „Losharik“. Þeir geta kafað niður á um sex kílómetra dýpi. Rússnesk stjórnvöld hafa sagt að kafbáturinn hafi verið við rannsóknir á sjávarbotninum í Barentshafi innan efnahagslögsögu Rússlands.


Tengdar fréttir

Rússar sakaðir um að hylma yfir kafbátaslys

Fjórtán sjóliðar fórust þegar eldsvoði kom upp í kafbát á mánudag. Rússneskir fjölmiðlar gagnrýna þögn stjórnvalda og telja að kafbáturinn hafi verið kjarnorkuknúinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×