Bandaríkin heimsmeistarar í fjórða sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Megan Rapinoe fagnar marki sínu.
Megan Rapinoe fagnar marki sínu. vísir/getty
Bandaríkin eru heimsmeistarar í annað sinn í röð og í fjórða sinn alls eftir 2-0 sigur á Evrópumeisturum Hollands í úrslitaleik í Lyon í dag.

Uppselt var á leikinn en 57.900 manns sáu Bandaríkin vinna sanngjarnan sigur. Bandaríska liðið vann alla sjö leiki sína á HM í Frakklandi með markatölunni 26-3. Aldrei hefur lið skorað jafn mikið á einu heimsmeistaramóti og Bandaríkin í ár.



Staðan í hálfleik var markalaus en Hollendingar gátu þakkað markverði sínum og fyrirliða, Sari van Veenendaal, fyrir þá stöðu. Hún varði þrisvar sinnum frá Alex Morgan og einu sinni frá Julie Ertz.

Á 60. mínútu dæmdi Stephanie Frappart vítaspyrnu á Stefanie van der Gragt fyrir brot á Morgan. Frappart studdist við myndband þegar hún kvað upp dóminn. Hann virtist vafasamur í fyrstu en í endursýningu sást að Van Der Fragt sparkaði í síðuna á Morgan.

Megan Rapinoe fór á punktinn og skoraði af öryggi, sitt sjötta mark á HM og það fimmtugasta fyrir bandaríska landsliðið.

Rapinoe er fyrsti leikmaðurinn sem skorar úr víti í úrslitaleik á HM kvenna og er auk þess elsti leikmaðurinn til að skora í úrslitaleik, 34 ára og tveggja daga.



Á 69. mínútu kom Rose Lavalle Bandaríkjunum í 2-0 með góðu vinstri fótar skoti. Þetta var þriðja mark hennar á HM í Frakklandi.

Eftir þetta var allur vindur úr Hollandi og Bandaríkjamenn voru líklegri til að bæta við mörkum en Hollendingar að minnka muninn.

Bandaríkin fengu færi til að auka muninn en fleiri urðu mörkin ekki. Lokatölur 2-0, bandaríska liðinu í vil.

Bandaríkin urðu einnig heimsmeistarar 1991, 1999 og 2015, og eru langsigursælasta lið í sögu HM kvenna.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira