Fótbolti

FIFA ætlar að stækka HM kvenna upp í 32 lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki á síðasta stórmóti stelpnanna sem var EM 2017.
Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki á síðasta stórmóti stelpnanna sem var EM 2017. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu ætti að eiga meiri möguleika á að komast á næsta heimsmeistaramót eftir fjögur ár. Alþjóða knattspyrnusambandið mun fjölga þjóðum um átta milli móta.

Heimsmeistarakeppni kvenna í fótbolta í Frakklandi hefur heppnast frábærlega og fótboltaheimurinn virðist ætla að bregðast strax við auknum áhuga á kvennafótboltanum.





Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur nú lofað því að stækka keppnina frá 24 liðum upp í 32 lið. FIFA ætlar líka að tvöfalda verðlaunaféð í keppninni og setja af stað heimsmeistarakeppni félagsliða hjá konunum.

Næsta Evrópumót fer fram í Englandi eftir tvö ár en árið 2023 er komið að næstu heimsmeistarakeppni. Það er ekki búið að ákveða það hvar hún fer fram.

Tíu þjóðir hafa sýnt því áhuga að halda heimsmeistarakeppnina eftir fjögur ár. Þær eru Argentína, Ástralía, Bólivía, Brasilía, Kólumbía, Japan, Nýja-Sjáland, Suður-Afríka og Suður-Kórea. Kóreumenn eru að íhuga sameiginlegt framboð með Norður-Kóreu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×