Viðskipti innlent

Kláruðu allan matinn á matarmarkaðinum

Ari Brynjólfsson skrifar
Matarmarkaðurinn í Laugardal verður aftur á sama stað um næstu helgi, en færist niður á Miðbakkann helgina eftir það.
Matarmarkaðurinn í Laugardal verður aftur á sama stað um næstu helgi, en færist niður á Miðbakkann helgina eftir það. Fréttablaðið/Valli
 „Það seldist allt upp hjá okkur á laugardeginum. Við neyddumst til að loka fyrr en við áætluðum,“ segir Róbert Aron Magnússon, skipuleggjandi Reykjavík Street Food sem sér um matarmarkaðinn í Laugardal. Matarmarkaðurinn var opnaður fyrst á laugardaginn og kláraðist þá allur maturinn á öllum stöðunum sem og bjórinn í bjórvagninum.

„Ég held að yfir daginn á laugardag hafi komið á milli fjögur og fimm þúsund manns, frá því við opnuðum á hádegi til klukkan sjö þegar allur maturinn var búinn,“ segir Róbert Aron og hlær. „Það var ekki hægt að selja meira. Við seldum líka allan bjórinn sem við ætluðum að eiga á sunnudeginum. Sem betur fer fengum við meira.“

Markaðurinn er undir suðurenda áhorfendastúkunnar á Laugardalsvelli og verður aftur á sama stað næstu helgi. Helgina þar á eftir verður hann á Miðbakkanum við gömlu höfnina í Reykjavík.

Róbert Aron Magnússon
 „Það verður aðeins öðruvísi skipulag við Miðbakkann. Þar verður götubitahátíð og keppni um besta bitann. Það verður svaka partí.“

Um er að ræða samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Reykjavik Street Food. Verkefnið var kosið af íbúum í kosningunum á vef Reykjavíkurborgar, Hverfið mitt, í fyrra. Alls voru sautján söluaðilar á markaðnum um helgina. Var hægt að gæða sér á alls kyns mat, humri, hamborgurum, taco, frönskum, íslensku sinnepi ásamt vegan valkosti. Einnig er hægt að kaupa íslenskar vörur beint frá býli á matarmarkaðnum.

Boðið var upp á skemmtiatriði, hoppukastala og andlitsmálningu fyrir börn.

Aðspurður hvað laði fólk að segir Róbert Aron það meira en bara svengd. „Þetta er búið að tröllríða heiminum, einfaldar útfærslur á mat í skemmtilegu umhverfi. Fyrir utan þetta fína veður, það umturnast allt á Íslandi í þegar það er sól og við erum búin að vera gríðarlega heppin þessa helgina.“


Tengdar fréttir

Spennandi matarmarkaður í Laugardalnum

Reykjavík Street Food stendur fyrir spennandi matarmarkaði í Laugardalnum tvær næstu helgarnar í júlí, í samstarfi við Reykjavíkurborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×