Erlent

Talinn hafa myrt stúlkuna og brennt líkið

Sylvía Hall skrifar
Lögregla að störfum á vettvangi.
Lögregla að störfum á vettvangi. Vísir/Getty
Lík hinnar 23 ára gömlu Mackenzie Lueck fannst eftir tveggja vikna leit í bakgarði hins 31 árs gamla Ayoola Ajayi í Salt Lake City í Bandaríkjunum. Maðurinn hefur verið handtekinn vegna gruns um morð, mannrán og það að hindra framgang réttlætis.

Lueck hvarf eftir að hafa pantað sér far með skutlaraþjónustunni Lyft frá flugvellinum í Salt Lake City. Kvaðst bílstjórinn hafa skutlað henni á áfangastað í norðurhluta borgarinnar áður en hann hélt áfram að sækja aðra farþega það sama kvöld. Vitni staðfestu frásögn bílstjórans sem sáu til stúlkunnar nærri áfangastaðnum.

Sjá einnig: Fékk far með Lyft og hefur ekki sést síðan

Ajayi var síðasta manneskja sem Lueck var í símasamskiptum við áður en sími hennar hætti að gefa frá sér merki klukkan þrjú að morgni til. Yfirlögreglustjóri í Salt Lake City segir stúlkuna hafa mælt sér mót við einhvern á þeim tíma og megi leiða líkur að því að það hafi verið Ajayi þar sem þau höfðu verið í samskiptum skömmu fyrir þann tíma.

Hafði skrifað bók þar sem söguhetjurnar brunnu til dauða 

Eigur Lueck sem og erfðaefni hennar fundust í brunarústum í garði Ajayi og var hann handtekinn í kjölfarið. Þrátt fyrir yfirgnæfandi sönnunargögn neitaði hann aðild að málinu, sagðist ekki vita hvernig Lueck liti út og neitaði að hafa hitt hana. Hann hefði einungis átt í samskiptum við hana í smáskilaboðum fyrr um kvöldið en myndir af Lueck fundust í síma hans.

Nágrannar Ajayi höfðu sett sig í samband við lögreglu eftir þeir urðu varir við það að hann væri að brenna eitthvað í garði sínum daginn eftir að Lueck sást síðast.

Í bók sem hann hafði skrifað og gefið út sjálfur dóu tvær söguhetjurnar í bruna, ekki ósvipað og í máli Lueck. Bókin hefur nú verið fjarlægð af vef Amazon þar sem hún var áður til sölu.

Ajayi var handtekinn á föstudag og stendur rannsókn málsins nú yfir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×