Viðskipti innlent

„Mjög miklar hækkanir“ í Hagkaup

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hagkaup í Garðabæ.
Hagkaup í Garðabæ. fbl/eyþór
Þurrvörur, brauð, kex, sælgæti og snakk hækkaði töluvert í verði í flestum verslunum á átta mánaða tímabili, ef marka má verðkönnun ASÍ. Verðhækkanir mátti finna í öllum þeim vöruflokkum sem skoðaðir voru frá hausti 2018 fram á sumar 2019. Verð hækkaði oftast í Hagkaup eða í 38 tilvikum af 49 en sjaldnast í Iceland eða í 9 tilvikum af 49. Þá voru verðhækkanir einnig mestar í Hagkaup.

Þetta sýna gögn verðlagseftirlits ASÍ sem safnað var dagana 10. október 2018 og 3. júní 2019. Þær verslanir sem samanburðurinn nær til eru Bónus, Krónan, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland og Kjörbúðin.

Í verðkönnun ASÍ segir að mestar verðhækkanir, í þeim flokkum og verslunum sem kannaðar voru, hafi verðið hækkað mest í Hagkaup. Þar voru „mjög miklar hækkanir“ í öllum vöruflokkum. Þannig hækkaði verð oftast í Hagkaup eða í 38 tilvikum af 49 og í 25 tilvikum af 49 voru mestu verðhækkanirnar í Hagkaup.

Verðið hækkaði hins vegar sjaldnast í Iceland, eða í 9 tilvikum af 49. Í öðrum verslunum hækkaði verð í um 40% tilfella eða í 21 tilvikum af 49 í Bónus, 22 tilvikum í Krónunni, 23 tilvikum í Nettó, 20 tilvikum í Fjarðarkaupum og 20 tilvikum í Kjörbúðinni.

Verð á tei og Doritos hækkaði duglega

ASÍ nefnir nokkrar vöruflokka sem hækkuðu duglega í verði, þeirra á meðal Lífskornabrauð frá Myllunni. Brauðið hækkaði í öllum verslunum nema Iceland um 4-15%. Hækkunin var lang mest hjá Hagkaup, 15%. Ömmu flatkökur hækkuðu að sama skapi um 17% í Hagkaup sem er mesta einstaka hækkunin á brauðmeti og 7% í Krónunni en ekkert í Nettó, Fjarðarkaupum og Kjörbúðinni. Flatkökurnar fengust ekki í Bónus og Iceland.

Þá hækkaði pylsubrauð frá Myllunni í öllum verslunum þar sem það fékkst. Mest var hækkunin 14% í Nettó, Kjörbúðinni og Hagkaup, 8% í Fjarðarkaupum, 5% í Krónunni og 4% í Iceland. Einnig hækkaði Crawfords vanilllukex um 9-14%, mest um 14% í Hagkaup og Kjörbúðinni og 13% í Nettó. Doritos ostasnakk hefur hækkað í fimm af sjö búðum um 5-30%. Hækkunin nam 5% í Bónus, Krónunni og Kjörbúðinni, 13% í Fjarðarkaupum og 30% í Hagkaup.

Einhver mesta hækkunin var þó á te frá Melroses í Hagkaup. Það hækkaði í verði um 27% í Hagkaup, 15% í Kjörbúðinni, 6% í Bónus og 1% í Krónunni. Tepokarnir hækkuðu ekkert í Iceland og Fjarðarkaup og voru ekki til í Nettó.

Mjólkurvörur í könnuninni hækka almennt minna en aðrir vöruflokkar að undanskildu hreinu KEA skyri sem hækkaði í öllum verslunum og námu hækkanirnar á bilnu 10-20%. Mjólkurvörur hækkuðu þó í einhverjum tilfellum og oftast í Hagkaup eða í 11 tilfellum af 12.

Í þessari töflu má sjá verðhækkanir milli tímabilanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×