Innlent

Íslendingarnir að öllum líkindum ekki með Chikungunya-veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Alicante, þar sem Íslendingarnir smituðust í fríi í maí.
Frá Alicante, þar sem Íslendingarnir smituðust í fríi í maí. Vísir/getty
Íslendingarnir fjórir sem taldir voru hafa sýkst af Chikungunya-veirunni, sjaldgæfri veirusýkingu sem berst milli manna með moskítóflugum, voru að öllum líkindum ranglega greindir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Embættis landlæknis.

Fyrstu niðurstöður bentu til Chikungunya-veirusýkingar en frekari staðfestingarpróf, bæði hér á Íslandi og erlendir, hafa ekki staðfest sýkinguna.

Á næstu dögum er fyrirhugað að frekari staðfestingarpróf fari fram til þess að ganga endanlega úr skugga um að fjórmenningarnir séu alfarið ósmitaðir af veirunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá sóttvarnalækni.

Þar kemur einnig fram að búið sé að láta einstaklingana sem um ræðir vita af stöðu mála og að allra leiða verði leitað til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar séu ranglega greindir með sjaldgæfar veirusýkingar eins og þá sem Chikungunya-veiran er.

Í samtali við Vísi sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að skoða þyrfti verklag á ákveðnum stöðum innan heilbrigðiskerfisins vegna málsins.

„Þetta verður tekið til skoðunar inni á veirufræðideildinni þar sem verklag og annað verður viðhaft. Það verður tekið til endurskoðunar. Síðan þarf líka að taka til endurskoðunar ákveðna staðfestingu á þessum greiningum. Það verður kannski að fá betra verklag og staðfestingu á því að niðurstaðan sé örugglega rétt.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/Baldur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×