Erlent

Evrópskir nas­hyrningar snúa aftur til heima­haganna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nashyrningarnir koma í þjóðgarðinn á miðnætti í kvöld.
Nashyrningarnir koma í þjóðgarðinn á miðnætti í kvöld. getty/Frédéric Soltan
Fimm svartir nashyrningar eru nú á leið frá Evrópu, þar sem þeir hafa lifað í búrum allt sitt líf, til þjóðgarðs í Rúanda. Tegund svartra nashyrninga er í útrýmingarhættu. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Sky.

Verið er að flytja dýrin um 6.000 km. Leið í dag, sem er lengsta leið sem farin hefur verið með nashyrninga frá Evrópu til Afríku en þessi flutningur hefur verið í undirbúningi í nokkur ár.

Minna en 5.000 villtir svartir nashyrningar og aðeins 1.000 austur-svartir nashyrningar eru eftir í Afríku og stendur að þeim ógn af veiðiþjófum.

Þrjú kvendýr og tvö karldýr nashyrningsins, sem eru á aldrinum tveggja til níu ára, voru valin til að flytja til þjóðgarðsins Akagera.

Öll fimm dýrin voru fædd og ræktuð í Evrópu og hafa verið í haldi allt þeirra líf.

Jasiri, Jasmina og Manny fæddust í safarí garðinum Safari Park Dvur Kralove í Tékklandi, Mandela er frá Ree Park safarí garðinum í Danmörku og Olmoti er frá Flamingo landi á Bretlandi.

Þau hafa verið gefin þróunarstjórn Rúanda í von um að fjölga svörtum nashyrningum í austur Afríku.

Fimmmenningarnir voru fyrst fluttir í Dvur Kralove safarí garðinn í Tékklandi til að þjálfa þau í því að lifa úti í náttúrunni.

Þau hafa einnig gengist undir margra mánaða þjálfun til að undirbúa þau fyrir 30 klst. ferðalagið frá Evrópu til Afríku og mun þeim vera fylgt og fylgst með þeim af reyndum dýragarðsvörðum og dýralæknum.

Jes Gruner, yfirþjóðgarðsvörður í Akagera þjóðgarðinum, sagði í samtali við fréttastofu Sky að það hafi tekið nokkur ár að finna réttu dýrin en þau hafa verið í haldi í Tékklandi síðan í nóvember í fyrra.

„Þau hafa verið í búrum í Evrópu,“ sagði hann. „Nú eru þau orðin vön búrunum sem þau verða flutt í og hafa vanist umferðarhljóðunum og þegar þau koma hingað á miðnætti ætlum við að sleppa þeim hægt og rólega.“

„Það mun taka þau nokkra mánuði áður en þau verða orðin vön nýju umhverfi.“

Premysl Rabar, safarígarðsstjóri í Dvur Kralove, sagði: „Lokaskrefið verður að sleppa þeim á norðurhluta þjóðgarðsins þar sem þau munu vera frjáls.“

Akagera þjóðgarðurinn hefur nánast útrýmt veiðiþjófnaði á svæðinu undanfarin ár og hefur hjálpað nokkrum tegundum að endurtengjast afrískri náttúru, þar á meðal ljónum árið 2015 en þau eru orðin þrefalt fleiri síðan.

Árið 2017 voru 18 nashyrningar fluttir í garðinn.

Fylgst verður með nashyrningunum fimm á meðan þau venjast nýjum heimkynnum sínum og búist er við að þau verði jákvæð viðbót við vistkerfið á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×