Skoðun

Staða ferðaþjónustunnar í hnotskurn

Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar
  1. Samdráttur í ferðaþjónustu á Íslandi árið 2019 er staðreynd. Töluverður samdráttur í verðmætasköpun er fyrirsjáanlegur, en hann verður mismikill milli fyrirtækja, atvinnugreina og eftir landshlutum.

  2. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmönnum í Samtökum ferðaþjónustunnar má reikna með að samdrátturinn verði á bilinu 10-20% borið saman við árið 2018.

  3. Samdrátturinn hófst í kjölfar ofris íslensku krónunnar árið 2017. Stór hluti ferðaþjónustu er verðlagður í erlendri mynt, 12-18 mánuði fram í tímann. Því koma áhrif af gengisbreytingum krónu gagnvart helstu mörkuðum fram með töluverðri tímatöf.

  4. Áhrif sterkrar krónu komu fram af fullum þunga árið 2018 og eru enn að verki í ár.

  5. Fall WOW air og kyrrsetning Boeing Max véla Icelandair ýta undir samdráttinn, þar sem framboð á flugsætum til Íslands er minna en áætlanir gerðu ráð fyrir.

  6. Félagsmenn í SAF hafa áhyggjur af næsta vetri, þar sem bókunarstaða er mjög óljós.

  7. Framboð á beinu flugi til og frá áfangastað hefur áhrif á eftirspurn – en eftirspurn á mörkuðum getur sömuleiðis og ekki síður haft áhrif á framboð flugs frá markaðssvæðum.
  1. Gengi krónu gagnvart evru er 14% veikara í dag (28. júní), en fyrir ári síðan. Gengi krónu gagnvart dollara er um 16% veikara og gagnvart bresku pundi rúmlega 12% veikara. Það er líklegt að veiking krónunnar muni nú þegar hafa áhrif á kaup erlendra ferðamanna á vörum og þjónustu hér á landi. Þessi þróun vegur upp á móti samdrætti í fjölda erlendra ferðamanna til landsins.

  2. Það er lykilatriði fyrir ferðaþjónustu á Íslandi að gengi krónu sé í nokkuð góðu jafnvægi gagnvart helstu viðskiptamyntum. „Of“ sterk króna þýðir töpuð tækifæri og lakari samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Haldist gengið á núverandi slóðum gæti það eflt ferðaþjónustu um land allt og þar með styrkt stöðu þjóðarbúsins í heild.

  3. Til að vinna gegn frekari samdrætti telja SAF brýnt að ráðist verði í markaðsátak á skilgreindum lykilmörkuðum til að örva eftirspurn eftir Íslandsferðum veturinn 2019-2020 og sumarið 2020. Sömuleiðis þarf að ráðast í markaðsátak á innanlandsmarkaði og hvetja til stóraukinnar ferðamennsku innanlands.

  4. Framlag ferðaþjónustu í verðmætasköpun landsins er mikilvæg stoð í efnahagslífi landsins. Opinber fjárfesting í stoðkerfi greinarinnar (í innviðum, markaðssetningu, rannsóknum, nýsköpun og vöruþróun) mun efla fyrirtækin í greininni, auka tekjur ríkisins og skila sér í bættum lífskjörum og ábata fyrir samfélagið allt til framtíðar.

  5. Ferðaþjónusta hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að skapa störf og ný tækifæri fyrir Íslendinga á undanförnum árum. Um tíma var atvinnuleysi hér á landi nær ekkert og átti ferðaþjónustan stærstan þátt í því. Staðan er hins vegar sú að í maí sl. voru um 10 þúsund manns á atvinnuleysiskrá í landinu og má ætla að hlutur ferðaþjónustunnar sé þar nokkur. Niðursveifla í ferðaþjónustu hefur þannig víðtæk áhrif á allt atvinnulíf í landinu.

  6. Eftirspurn eftir Íslandsferðum er fyrir hendi. Ísland er einstakur áfangastaður, sem enn er örlítill í alþjóðlegu samhengi. Samdráttur stafar fyrst og fremst af háu verðlagi, sem rekja má til samspils hækkunar á innlendum kostnaði og sterkrar krónu. Komist jafnvægi á gengi krónu á þeim stað sem uppfyllir bæði markmið útflutningsgreina og hagstjórnar er framtíð Íslands sem áfangastaðar björt.


Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×