Skoðun

75 ára afmæli lýðveldisins

Lilja Alfreðsdóttir skrifar

Við minnumst 75 ára afmælis íslenska lýðveldisins í dag.



Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð er ljóst að menningin, tungumálið og bókmenntirnar eru í lykilhlutverki. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og líkt og lýðræðið stendur íslenskan á ákveðnum tímamótum. Hvorugt ættum við að álíta sjálfsagðan hlut, hvorki þá né í dag.



Við getum horft til afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar forseta, í því samhengi. Hann hafði djúpstæð áhrif á Íslandssöguna sem fræði- og stjórnmálamaður, og fræðistörfin mótuðu um margt orðræðu hans á vettvangi stjórnmálanna. Hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun en samtímamenn sínir, hann beitti gagnrýninni hugsun – rökum og staðreyndum, í sínum mikilvæga málflutningi. Það var raunsær hugsjónamaður sem kom okkur á braut sjálfstæðis. Gagnrýnin hugsun er að mínu mati það sem einna helst mun stuðla að jákvæðri þróun þessara tveggja lykilþátta; lýðræðisins og tungumálsins. Lýðræðið gerir okkur að frjálsum borgurum og veitir okkur tækifæri til virkrar þátttöku í mótun samfélagsins. Að sama skapi hvílir á okkur mikil ábyrgð vegna þessa og það er skylda okkar að afla þekkingar á málefnum líðandi stundar til styrkja lýðræðið. Það sem helst vinnur gegn framförum hvers samfélags er áhuga- og afskiptaleysi. Virk þátttaka og rýni til gagns skila okkur mestum árangri, hvort sem verkefnin eru lítil eða risavaxin.



Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar er ekki sjálfgefin. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Það er okkar og komandi kynslóða að halda áfram á þeim grunni. Ég óska okkur öllum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×