Íslenski boltinn

Óli Kristjáns: Ekki frammistaða okkur til sóma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson vísir/bára
FH fékk skell á Kópavogsvelli í kvöld þegar liðið tapaði 4-1 á móti Breiðabliki í stórleik í sjöundu umferð Pepsi Max deildar karla.

„Það er voðalega erfitt að segja svona strax eftir leik en þeir pökkuðu okkur saman í seinni hálfleik,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, spurður út í hvað hefði farið úrskeiðis í leik FH í kvöld.

Markalaust var í hálfeik en Breiðablik setti kraft í seinni hálfleikinn og rúllaði FH liðnu upp.

„Þeir unnu okkur í návígum, við spiluðum aftur á bak og passívt. Gerðum ekki það sem við töluðum um að fara aftur fyrir þá eins og við vorum að reyna að gera í fyrri hálfeik. Við kólnuðum bara niður í síðari hálfleik og verðskuldaður sigur Blikanna.“

„Fyrri hálfleikurinn var nokkurn veginn í jafnvægi en mér fannst við aðeins með yfirhöndina. Við komum algjörlega loftlausir út í seinni hálfleik og þetta var ekki frammistaða okkur til sóma.“

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var tekinn af velli í hálfleik og Ólafur sagði það hafa verið vegna meiðsla.

„Hann er búinn að vera að brasa með hnéð á sér og var ekki góður eftir fyrstu 45 og bað um skiptingu. Það eru brjóskskemmdir í hnénu á honum og búið að vera mikið álag á honum.“

Hvað er það helsta sem Ólafur tekur út úr leiknum?

„Ég tek það út úr leiknum að við kólnum niður í seinni hálfleik og sýndum ekki mótstöðu á neinn hátt. Án þess að taka neitt af Breiðabliki, þeir gerðu vel, þá gáfum við allt of mikið eftir,“ sagði Ólafur Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×