Íslenski boltinn

Helgi: Vorum komnir alltof snemma í frí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi og félagar eru í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
Helgi og félagar eru í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar. vísir/andri marinó
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, var ánægður með sigurinn á HK í Kórnum í kvöld. Árbæingar lentu undir í fyrri hálfleik en skoruðu tvö mörk undir lok leiksins og tryggðu sér stigin þrjú.

„Við breyttum yfir í 3-5-2 eftir um klukkutíma. Það leikkerfi hefur gefið góða raun og einhverra hluta vegna verðum við ákveðnari í því. Og sem betur fer náðum við að jafna og skora sigurmarkið,“ sagði Helgi eftir leik.

„Þetta voru tveir ólíkir hálfleikar. Við vorum afar slakir í fyrri hálfleik og langt frá okkar besta. Í hálfleik talaði ég um að við værum komnir alltof snemma í frí og yrðum að klára þennan leik. Mínir menn gerðu það sem til þurfti til að vinna. Þetta var ekki okkar besti leikur en þeim mun meiri karakter í þessu.“

Fyrir leikinn í kvöld höfðu Fylkismenn ekki unnið í fimm deildarleikjum í röð.

„Það fer eftir því hvernig litið er á það,“ sagði Helgi um rýra uppskeru síðustu vikna.

„Ef menn telja stig á móti FH og KR lélegt er þetta ekki að ganga. Við teljum þessi stig góð en við þurfum að vinna í kringum jafnteflin og það kom í dag. Einn þriðji af mótinu er búinn og við erum þokkalega sáttir en vitum að við eigum meira inni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×