Viðskipti innlent

Verðið komið niður í 211 krónur hjá Dælunni líka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bensínstöð Dælunnar á Salavegi.
Bensínstöð Dælunnar á Salavegi.
Þeir sem keyptu sér bensín fyrir um 240 krónur á lítrann um helgina sjá líklega aðeins eftir því. Dælan hefur ákveðið að lækka verð á öllum fimm bensínstöðvum sínum í dag í framhaldi af því að Atlantsolía lækkaði verð sitt á einni stöð og svo Orkan á tveimur.

Bensínlítrinn kostar nú 211,2 krónur hjá Dælunni og lítrinn af dísel olíu 201,8 krónur. Dælan rekur þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar í Reykjavík og tvær í Kópavogi. Fellsmúla, Holtagörðum, Stekkjarbakka, Hæðasmára og Salavegi.

„Ég held að þetta sé samkeppni í sinni tærustu mynd,“ segir Jón Páll Leifsson, framkvæmdastjóri Dælunnar í samtali við Vísi.

„Við þurfum bara að bregðast við.“

Dælan er sjálfstætt fyrirtæki en um er að ræða fimm bensínstöðvar sem voru áður í eigu N1. Samkeppniseftirlitið gerði N1 að selja fimm stöðvar við kaup N1 á Festi.

Eins og staðan er núna bjóða Dælan (fimm stöðvar), Orkan (tvær stöðvar) og Atlantsolía (tvær stöðvar) upp á bensínlítrann á 211 krónur. Almennt verð er 241 króna á lítrann.


Tengdar fréttir

Lækka verð á bensínlítranum um 30 krónur

Atlantsolía lækkaði í dag verð á eldsneyti í rúmlega 211 krónur á lítrann á stöð sinn á Sprengisandi í Reykjavík. Er verðið nú á pari við það sem er á stöðinni í Kaplakrika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×