Enski boltinn

Kane hefur engar áhyggjur af því að sárindi frá Meistaradeildarleiknum trufli enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og félagar eftir úrslitaleikinn í  Meistaradeildinni.
Harry Kane og félagar eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni. Getty/David S. Bustamante
Enska landsliðið mætir því hollenska í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar á morgun en nokkrir leikmenn enska liðsins voru andstæðingar á laugardaginn var.

Leikur Englands og Hollands fer fram annað kvöld og verður hann í beinni á Stöð 2 Sport. Sigurvegarinn kemst í úrslitaleikinn á sunnudaginn.

Harry Kane er einn af fjórum leikmönnum enska landsliðshópsins sem töpuðu úrslitaleik Meistaradeildarinnar um síðustu helgi. Tottenham tapaði þar 2-0 á móti Liverpool en auk Kane voru í Tottenham-liðinu þeir Dele Alli, Eric Dier og Danny Rose.

Harry Kane segir að það sé mjög sterk samkennd innan enska landsliðsins og það fari vel á með öllum í liðinu.

„Við höfum myndað svo sterk tengsl að þótt að við spilum með mismunandi félögum þá eru allir einbeittir á verkefni landsliðsins þegar við komum saman“ sagði Harry Kane eins og kemur fram á heimasíðu UEFA. Enska landsliðið er skipað mörgum leikmönnum sem ættu að geta verið liðsfélagar í landsliðinu í mörg ár til viðbótar.

Leikmenn Liverpool í enska landsliðinu eru þeir Jordan Henderson, Joe Gomez og Trent Alexander-Arnold. Í hollenska liðinu eru síðan Liverpool leikmennirnir Virgil van Dijk og Georginio Wijnaldum.

„Það þarf ekkert að tala um það við menn að þeir þurfi klæða sig úr félagshamnum. Það gerist á náttúrulegan hátt. Það hjálpar líka til að við höfum spilað saman upp yngri landsliðin og einnig með félagsliðum þegar við vorum yngri. Við erum því allir mjög góðir vinir,“ sagði Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×