Innlent

Vilja að Landssamband lögreglumanna „standi í lappirnar“ gagnvart ríkislögreglustjóra

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögreglufélag Norðurlands vestra vill að breytingar verði gerðar á bílamálum lögreglu þannig að lögreglustjórar embættanna sjái sjálfir um rekstur bifreiða lögreglu og að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður.
Lögreglufélag Norðurlands vestra vill að breytingar verði gerðar á bílamálum lögreglu þannig að lögreglustjórar embættanna sjái sjálfir um rekstur bifreiða lögreglu og að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður. Vísir/Jóhann K
Lögreglufélag Norðurlands vestra lýsir yfir fullum stuðningi með kvörtun sérsveitarmanna til dómsmálaráðuneytisins, sem er með málið til skoðunar, vegna óánægju með rekstur ríkislögreglustjóra á lögreglubílum. Félagið vill að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði alfarið lögð niður.

Heimildir RÚV herma að lögreglustjórar landsins ætli að funda með ríkislögreglustjóra vegna málsins á föstudag og að mikil óánægja sé innan lögreglunnar með rekstur bílamiðstöðvarinnar. Sum lögregluembættin hafi farið þá leið að taka bíla á leigu sem hafi reynst ódýrara en að leigja af bílamiðstöðinni.

Fyrirkomulagið í núverandi mynd er þannig að ríkislögreglustjóri rekur bílamiðstöð lögreglunnar og lögregluembættin leigja lögreglubílana af ríkislögreglustjóra.

Lögreglufélag Norðurlands vestra sendi frá sér tilkynningu í kjölfar félagsfundar um málið. Þar segir að mikilvægt sé að sérsveitin verði aftur starfhæf á Norðurlandi rétt eins og núverandi skipulag ríkislögreglustjóra sjálfs gerir ráð fyrir.

Lögreglufélagið beinir þeim tilmælum til Landssambands lögreglumanna að „standa í lappirnar, lögreglumönnum til heilla í þeim málum er varðar ríkislögreglustjóra“.

Lögreglufélagið vill að Landsamband lögreglumanna standi í lappirnar gagnvart ríkislögreglustjóra.Vísir/Jóhann K
Í tilkynningunni er minnt á að á landsþingi Landssambands lögreglumanna árið 2014 hefðu þrjár ályktanir verið samþykktar sem allar beindust gegn störfum ríkislögreglustjóra.

„Sérstaklega er bent á ályktun er varðaði fata- og tækjamál, en þar var mótmælt vandræðum lögreglumanna við að nálgast lögreglufatnað. Nú fimm árum seinna hefur vandræðagangur ríkislögreglustjóra í fatamálum margfaldast og nú er svo komið að lögreglustjórar hver í sínu héraði reyna af mætti að kaupa föt á lögreglumenn án nokkurra útboða, og samræmi í fatamálum er lítið á milli embætta. Telur fundurinn að þar fari fram sóun á almannafé“.

Lögreglufélag Norðurlands vestra vill að breytingar verði gerðar á bílamálum lögreglu þannig að lögreglustjórar embættanna sjái sjálfir um rekstur bifreiða lögreglu og að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður.


Tengdar fréttir

Helga Vala segir lögregluna fjársvelta

Þingmaður Samfylkingarinnar bendir á að þyrlukaup Landhelgisgæslunnar séu inni í því fjármagni sem sett er í löggæslu hér á landi. Auka þurfi fjármagn til Lögreglunnar sjálfrar til að mæta auknum umsvifum skipulagðrar glæpastarfsemi.

Kvartanir sérsveitarmanna í skoðun

Dómsmálaráðuneytið hefur til meðferðar kvartanir nokkurra lögreglumanna. Framkoma ríkislögreglustjóra helsta umkvörtunarefnið. Einnig ágreiningur um heildarskipulag sérsveitarinnar á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×