Erlent

Hlébarði drap tveggja ára dreng í Suður-Afríku

Birgir Olgeirsson skrifar
Hlébarðanum tókst að komast inn fyrir afgirt svæði þar sem hann náði til drengsins sem var sonur starfsmanns þjóðgarðsins.
Hlébarðanum tókst að komast inn fyrir afgirt svæði þar sem hann náði til drengsins sem var sonur starfsmanns þjóðgarðsins. Vísir/Getty
Hlébarði drap tveggja ára dreng í Kruger-þjóðgarðinum í Suður-Afríku í gær. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að hlébarðanum hafi tekist að komast inn fyrir afgirt svæði þar sem hann náði til drengsins sem var sonur starfsmanns þjóðgarðsins.

Fjölskylda drengsins hraðaði honum á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. Forsvarsmenn þjóðgarðsins sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðu árásir hlébarða sjaldgæfar en þjóðgarðsverðir felldu hlébarðann til að afstýra frekari hættu.

Ike Phaahla, talsmaður þjóðgarðsins, sagði að aðdragandi dauða drengsins væri ekki á hreinu.

Hann sagði að dýrin væru venjulega hrædd við mannfólk og færu alla jafna ekki nálægt þeim.

„Í þjóðgörðum eiga rándýr það til að nálgast ferðamenn og starfsmenn sem gerir það að verkum að tegundir á borð við hlébarða venjast nærveru mannfólks og verða þar með ekki lengur hrædd,“ sagði Phaahla.

Þeir sem heimsækja þjóðgarðinn þurfa að fylgja ströngum reglum til að halda fjarlægð frá dýrunum. Þar á meðal þarf að tryggja að öllum hliðum sé læst eftir að farið er í gegnum þau og ferðast ávallt í hópum.

Phaahla segir að hlébarði þurfi að vera mjög hugrakkur til að ráðast á fullorðna manneskju en gæti hugsað sér gott til glóðarinnar þegar hann sér lítið barn.

Sá sem er yfir öllum þjóðgörðum Suður-Afríku, Fundisile Mketeni, sagði hug sinn hjá fjölskyldu barnsins.

„Þetta er áhættan sem við lifum við á hverjum degi á sama tíma og við reynum að viðhalda tegundum öllum til hagsbóta,“ sagði Mketeni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×