Enski boltinn

Stones fékk 2,96 í einkunn en Van Dijk valinn sá besti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Niðurlútur Stones.
Niðurlútur Stones. vísir/getty
Holland er komið í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar eftir 3-1 sigur á Englandi eftir framlengdan leik í Guimares í Portúgal í gærkvöldi.

England komst yfir í leiknum með marki frá Marcus Rashford úr vítaspyrnu en Matthijs de Ligt jafnaði með hörkuskalla á 73. mínútu.

Því þurfti að framlengja en Kyle Walker skoraði sjálfsmark á 97. mínútu og Quince Promes innsiglaði sigur Hollendinga á 114. mínútu. Lokatölur 3-1.

John Stones, miðvörður Manchester City og enska landsliðsins, átti ekki sinn besta leik í gærkvöldi og gerði meðal annars hörmuleg mistök í öðru marki Hollendinga er hann missti boltann sem aftasti maður.

BBC var ekki hrifið af Stones en hann var langneðsti leikmaður BBC í einkunnagjöf frá því í leiknum í gær. Hann fékk einungis 2,96 fyrir frammistöðu sína.

Besti leikmaður Englands var valinn Everton-maðurinn og markvörðurinn, Jordan Pickford, en hann var með 6,06 í einkunn. Sá leikmaður á vellinum sem fékk hæstu einkunn var Virgil van Dijk með 6,91.

Holland mætir Portúgal í úrslitaleiknum á sunnudaginn á meðan England spilar við Sviss um bronsið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×