Innlent

Fyrr­verandi bæjar­stjóri sakar eftir­mann um að hnýsast í einka­bréf

Ari Brynjólfsson skrifar
Frá Seyðisfirði
Frá Seyðisfirði fréttablaðið/stefán
Fyrrverandi bæjarstjóri Seyðisfjarðar sakaði núverandi bæjarstjóra um að hnýsast í einkabréf sín. Kvörtun Vilhjálms Jónssonar, oddvita B-lista á Seyðisfirði, var tekin fyrir á síðasta bæjarráðsfundi. Hann sakar Aðalheiði Borgþórsdóttur bæjarstjóra um að hafa hnýst í einkabréf.

Fram kemur í bókun bæjarstjóra að bréfið hafi verið stílað á Seyðisfjarðarkaupstað en hafi átt að berast til Vilhjálms sem lét af störfum sem bæjarstjóri í október í fyrra. Enn berast bréf frá hinum ýmsu stofnunum og félagasamtökum til bæjarstjóra sem eru merkt Vilhjálmi.

Mun starfsmaður kaupstaðarins ekki hafa áttað sig á að bréfið, sem var frá Skipulagsstofnun, hefði verið ætlað Vilhjálmi persónulega.

„Þetta var hreint og klárt óviljaverk. Um leið og það var ljóst að þetta átti ekki að opnast var bréfinu fargað og sendandinn beðinn um að leiðrétta sín mistök. Þetta er ekkert eins og hann er að gefa í skyn í kvörtun sinni, að bæjarstjóri hafi vísvitandi verið að hnýsast í hans einkapóst. Það er bara þvæla,“ segir Rúnar Gunnarsson, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar.

Mun starfsmaður Skipulagsstofnunar hafa talið Vilhjálm vera að vinna verk fyrir hönd kaupstaðarins. Hann sendi Vilhjálmi síðan leiðrétt bréf ásamt afriti til kaupstaðarins. Ekki náðist í Vilhjálm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×