Erlent

Lögreglumaður í Minnesota fangelsaður fyrir morð á vakt

Andri Eysteinsson skrifar
Noor mætir til dóms, ásamt lögfræðiteymi sínu.
Noor mætir til dóms, ásamt lögfræðiteymi sínu. Getty/Stephen Maturen
Lögreglumaðurinn fyrrverandi, Mohamed Noor, sem starfaði í Minneapolis í Minnesota var í dag dæmdur til tólf og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að hafa orðið hinni fertugu Justine Damond að bana í júlí árið 2017. Damond, hafði sjálf hringt eftir aðstoð lögreglu, og var skotin þar sem hún hljóp að lögreglubílnum sem kom á vettvang. BBC greinir frá.

Noor, sem var á vakt, bað fjölskyldu Damond afsökunar við dómsuppkvaðningu í dag en Noor viðurkenndi að hafa orðið Damond að bana í útkallinu í júlí 2017. Noor sagðist hafa heyrt háan hvell rétt áður en að Damond kom askvaðandi með hægri hönd útrétta. Því hafi hann tekið ákvörðun um að hleypa af skotvopni sínu sem varð Damond að bana. Noor kvaðst hafa óttast að setið væri um hann og félaga sinn á vettvangi.

Saksóknarar höfðu við meðferð málsins gagnrýnt vinnubrögð Noor, sér í lagi fyrir að hafa skotið án þess að hafa séð vopn. Noor var sakfelldur í apríl síðastliðnum fyrir annars stigs manndráp og þriðja stigs morð fyrir verknaðinn.

Úrskurðinum var mótmælt í dómshúsi í Minneapolis í dag en mótmælendur töldu að öðruvísi hefði farið með málið hefði hvítur lögregluþjónn verið lögsóttur í stað fyrir Noor sem var sómalskur innflytjandi.

Justine Damond var 40 ára gömul þegar hún lést. Damond var upprunalega frá Sydney í Ástralíu og höfðu hún og unnusti hennar, Don Damond, áætlað að giftast í ágúst 2017, mánuði eftir að hún var myrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×