Enski boltinn

„Van Dijk og De Ligt geta stöðvað Ronaldo“

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Ligt og Van Dijk reyna að stöðva Ronaldo í kvöld.
De Ligt og Van Dijk reyna að stöðva Ronaldo í kvöld. vísir/getty
Ronald Koeman, þjálfari Hollands, er fullviss um að miðverðir sínir, þeir Virgil Van Dijk og Matthijs De Ligt, geta vel stöðvað Cristiano Ronaldo er Holland og Portúgal mætast í kvöld.

Liðin mætast í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar en leikurinn hefst klukkan 18.45. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Ronaldo var funheitur á miðvikudagskvöldið er Portúgal tryggði sér sæti í úrslitaleiknum en hann skoraði þrjú mörk í 3-1 sigri á Sviss. Koeman hefur þó trú á sínu liði.

„Við spiluðum æfingaleik í Sviss ekki fyrir löngu og þar stöðvaði De Ligt Ronaldo. Það er ekki bara Van Dijk sem getur stöðvað Ronaldo,“ sagði Koeman á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ronaldo er það góður að hann getur skapað sér færi gegn mjög góðum varnarmönnum. Það er það besta við fótboltann. Þú getur ekki gert neitt því gæðin hans eru í það háum gæðaflokki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×