Skoðun

Norðurskautsmál rædd í Sjanghæ

Guðjón S. Brjánsson og Sigurður Ólafsson skrifar
Fyrir skömmu síðan var kínverska stórborgin Sjanghæ vettvangur tveggja stórra ráðstefna um norðurskautsmál. Norræna-kínverska norðurslóðaráðstefnan fór fram í sjöunda sinn og í kjölfarið var Hringborð norðurslóða (Arctic Circle) haldið í borginni. Hundruð manna voru mætt til borgarinnar til þess að ræða norðurskautsmál þar sem áherslan var sérstaklega á áhrif og áætlanir Kínverja á þessu sífellt mikilvægara heimssvæði.

Einkum var rætt um hina svokölluðu „Nýju-Silkileið“ sem einnig gengur undir nafninu „Belti og braut“ en það eru risavaxnar áætlanir Kínverja sem tengja eiga landið betur við aðra hluta heimsins. Það sem að norðurslóðum snýr er siglingaleiðin sem kann að opnast vegna hlýnunar jarðar eftir norðurskautssvæðinu frá Austur-Asíu, eftir ströndum Rússlands og til okkar í Norður-Atlantshafi.

Skýrt kom í ljós á ráðstefnunum að Kínverjar eru mjög með hugann við þessar framtíðaráætlanir og láta raunar ekki sitja við orðin tóm.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast náið með þessari merkilegu þróun og hafa á hana áhrif. Margir Íslendingar hafa áttað sig á þessu og fjölmennur hópur fólks úr ýmsum áttum var mættur til Sjanghæ frá Íslandi.

Við sóttum ráðstefnurnar fyrir hönd Vestnorræna ráðsins sem er samstarf þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands. Vestnorræna ráðið hefur lengi áttað sig á mikilvægi norðurslóðamála og er meðal annars áheyrnaraðili í Norðurskautsráðinu.

Það skiptir vestnorrænu ríkin mjög miklu máli að fylgjast með þróuninni á norðurskautssvæðinu þar sem stóraukin skipaumferð eftir hinni „Nýju-Silkileið“ gæti til dæmis gjörbreytt stöðu okkar á mörgum sviðum. Þetta getur orðið uppspretta ýmissa tækifæra en jafnframt leitt til vandamála og erfiðra álitaefna.

Þróunin er hröð og það er alveg ljóst að gjörbreytt staða gæti blasað við hér á okkar heimssvæði fyrr en nokkurn grunar.

Þar hyggjumst við í Vestnorræna ráðinu ekki sitja hljóð hjá eða láta hluti koma okkur í opna skjöldu. Undir liggja sameiginlegir hagsmunir okkar allra á vestnorræna svæðinu þar sem samstarf ríkjanna þriggja er lykilatriði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×