Erlent

Fangelsisdómur yfir dönskum votti Jehóva í Rússlandi staðfestur

Samúel Karl Ólason skrifar
Dennis Christensen í dómshúsi í Oryol í dag.
Dennis Christensen í dómshúsi í Oryol í dag. AP/Vottar Jehóva
Áfrýjunardómstóll í Rússlandi hefur staðfest sex ára fangelsisdóm yfir Dananum Dennis Christensen. Hann var upprunalega dæmdur í febrúar fyrir að skipuleggja starfsemi bannaðra öfgasamtaka. Dennis Christensen er 46 ára gamall byggingarstarfsmaður sem á rússneska konu og hefur hann búið í Rússlandi í sextán ár.

Hann var handtekinn í maí árið 2017 á bænafundi í Oryol, um 320 kílómetrum suður af Moskvu. Hæstiréttur héraðsins hafði um ári áður lagt bann við starfsemi votta Jehóva þar.

Hæstiréttur Rússlands hefur síðan komist að þeirri niðurstöðu að vottar séu öfgasamtök og skipaði fyrir um að trúfélagið skyldi leyst upp um allt land. Eftir að Christensen var handtekinn hafa nærri því hundrað vottar verið ákærðir í Rússlandi. AP-fréttastofan segir að um tuttugu þeirra dúsi í fangelsi þar sem þeir bíða réttarhalda.

Moscow Times vitna í yfirlýsingu frá vottum Jehóva þar sem segir að þrír dómarar hafi komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að staðfesta dóminn gegn Christensen. Í tilkynningunni segir að alls 197 vottar hafi verið ákærðir í Rússlandi. Þar af 28 konur og menn sem sitji í fangelsi og 24 sem séu í stofufangelsi.

Mannréttindasamtökin Amnesty International fordæma ákvörðun dómaranna. Rússnesk stjórnvöld hafa notað almennt orðalag í lögum um öfgasamtök til þess að ofsækja andófsmenn, pólitíska aðgerðasinna og trúarminnihluta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×