Erlent

Göngumaður fannst á lífi á Hawaii eftir tvær vikur

Sylvía Hall skrifar
Amanda Eller ásamt sjálfboðaliðum sem fundu hana á föstudag.
Amanda Eller ásamt sjálfboðaliðum sem fundu hana á föstudag. Facebook
Hin 35 ára gamla Amanda Eller fannst á lífi eftir að hún hvarf á eyjunni Maui þann 8. maí síðastliðinn þegar hún varð viðskila við kærasta sinn. BBC greinir frá.

Fjölskylda og vinir Eller höfðu sett af stað umfangsmikla leit að henni eftir að ekkert heyrðist frá henni og buðu peningaverðlaun til þeirra sem gátu veitt upplýsingar um afdrif hennar. Eller fannst á föstudag eftir að hún gerði björgunarþyrlu viðvart með handahreyfingum.

Samkvæmt BBC týndist Eller eftir að hún villtist af leið og meiddist á göngu um svæðið. Á fyrstu ljósmyndum má sjá Eller brosa breitt ásamt sjálfboðaliðum, örlítið meidd og óhrein eftir tveggja vikna dvöl í óbyggðum.





Eller, sem einnig er yoga-kennari, er sögð vera í góðu ástandi miðað við tímann sem hún var týnd. Hún var ekki í skóm né sokkum og eru fætur hennar því illa leiknir en læknar telja hana mögulega hafa fótbrotnað þegar hún slasaðist. Þá er hún sögð hafa haldið sér á lífi með því að safna berjum og drekka vatn úr lækjum á svæðinu.

Móðir Eller segist aldrei hafa gefið upp vonina og hún hafi alltaf fundið í hjarta sínu að dóttir sín væri enn á lífi.  

„Ég efaðist ekki í eina mínútu. Jafnvel þegar ég varð örvæntingarfull reyndi ég alltaf að vera sterk fyrir hana því ég vissi að við myndum finna hana ef við myndum fylgja áætlun,“ segir móðir hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×