Enski boltinn

Trippier ekki í Þjóðadeildarhópnum hjá Southgate

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trippier fer ekki með enska landsliðinu til Portúgals.
Trippier fer ekki með enska landsliðinu til Portúgals. vísir/getty
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, hefur tilkynnt hvaða 23 leikmenn verða í enska hópnum í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar í Portúgal í næsta mánuði.

Southgate valdi upphaflega 27 leikmenn í Þjóðadeildarhópinn. Þeir óheppnu sem duttu út úr hópnum eru Nathan Redmond, James Ward-Prowse, Harry Winks og Kieran Trippier.

Sá síðastnefndi var einn besti leikmaður Englands á HM síðasta sumar en átti ekki sitt besta tímabil með Tottenham í vetur. Southgate ákvað því frekar að veðja á Kyle Walker og Trent Alexander-Arnold í stöðu hægri bakvarðar.

„Trippier hefur verið stór hluti af hópnum, viðhorf hans er til fyrirmyndar og hann hefur mikla ástríðu fyrir landsliðinu en Walker og Alexander-Arnold enduðu tímabilið svo vel,“ sagði Southgate.

Trippier hefur leikið 16 landsleiki og skorað eitt mark. Það kom beint úr aukaspyrnu gegn Króatíu í undanúrslitum HM í Rússlandi.

Liðsfélagi Trippiers hjá Tottenham, Harry Kane, er í hópnum en hann hefur glímt við meiðsli undanfarnar vikur. Kane sagði þó í gær að hann væri klár í slaginn fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardaginn þar sem Spurs mætir Liverpool.

England mætir Hollandi í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar 6. júní. Þremur dögum seinna fara úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sætið fram.

Enska hópinn sem fer til Portúgals má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×