Fótbolti

Barcelona vill fá Martínez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martínez hefur gert góða hluti með belgíska landsliðið.
Martínez hefur gert góða hluti með belgíska landsliðið. vísir/getty
Roberto Martínez, þjálfari belgíska landsliðsins, þykir líklegur til að taka við Barcelona verði knattspyrnustjóri liðsins, Ernesto Valverde, látinn taka pokann sinn.

Valverde gerði Barcelona að Spánarmeisturum annað árið í röð en liðið tapaði fyrir Valencia í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar og féll úr leik fyrir Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir að hafa unnið fyrri leikinn, 3-0. Barcelona kastaði einnig frá sér þriggja marka forystu gegn Roma í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra.

Útvarpsstöðin RAC1 í Katalóníu greindi frá því að staða Valverdes sé ótrygg og Barcelona renni hýru auga til Martínez sem hefur þjálfað belgíska landsliðið síðan 2016.

Undir hans stjórn enduðu Belgar í 3. sæti á HM síðasta sumar sem er besti árangur þeirra á heimsmeistaramóti frá upphafi.

Martínez, sem er frá Katalóníu, stýrði áður Swansea City, Wigan Athletic og Everton á Englandi. Hann gerði Wigan að bikarmeisturum 2013.

Forráðamenn Barcelona hafa sýnt Valverde stuðning í fjölmiðlum en þeir ku vilja fá stjóra sem er harðari á æfingasvæðinu og spilar skemmtilegri fótbolta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×