Fótbolti

Real Madrid verðmætasta félag heims og þrjú ensk á undan Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Real Madrid menn hafa ekki getað fagnað miklu á nýloknu tímabili en unnu þó heimsmeistarakeppni félagsliða í desember.
Real Madrid menn hafa ekki getað fagnað miklu á nýloknu tímabili en unnu þó heimsmeistarakeppni félagsliða í desember. Getty/ Etsuo Hara
Það hefur lítið sem ekkert gengið hjá spænska stórliðinu Real Madrid á þessu tímabili en félagið getur þó glaðst yfir því að vera komið upp í efsta sætið sem verðmætasta félag Evrópu.

Real Madrid er komið upp fyrir Manchester United á nýjum verðmætalista KPMG en sú samantekt byggir á keppnistímabilunum 2016-17 og 2017-18. Þar liggur kannski lukka Real Madrid manna.





Virði Real Madrid metur KPMG að sé 3,22 milljarða evra eða 447 milljarða íslenskra króna. Það hjálpar Real mikið í þessari samantekt að liðið vann Meistaradeildina bæði þessi tímabil en spænska félagið auk virði sitt um tíu prósent á árunum 2016 til 2018.

Manchester United hefur líka verið í lægð á síðustu árum og gefur nú eftir titilinn sem verðmætasta félag í Evrópu. United fer þó ekki neðar en í 2. sætið með virði upp á 3,207 milljarða evra eða 445 milljarða íslenskra króna. Í næstu sætum eru síðan Bayern München og Barcelona.

Real Madrid ætlar sér að ná til síns stórstjörnur í sumar til að rífa liðið sitt upp en Real var úr leik á öllum vígstöðvum í marsmánuði sem er afar óvenjulegt ástand á Santiago Bernabeu.





Liverpool og Tottenham mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn en þau eru nokkuð frá toppnum. Liverpool er sjöunda verðmætasta félag Evrópu og Tottenham er í níunda sæti.

Ensku félögin eru samt mjög áberandi meðal verðmætustu félaganna. Það eru þrjú ensk félög á undan Liverpool eða Manchester United, Manchester City og Chelsea. Arsenal er síðan á milli Liverpool og Tottenham. Þrjú önnur ensk félög komust líka á lista yfir 32 verðmætustu félög Evrópu en það eru West Ham United, Leicester City og Everton.

Skoska félagð Celtic og spænska félagið Villarreal eru bæði á þessum lista í fyrsta sinn en þau taka sæti Valencia og tyrknesk félags sem detta bæði út af topp 32 listanum.

Tíu verðmætustu félög Evrópu að mati KPMG:

1. Real Madrid - 3,224 milljarðar evra

2. Manchester United - 3,207 milljarðar evra

3. Bayern Munich - 2,696 milljarðar evra

4. Barcelona - 2,676 milljarðar evra

5. Manchester City - 2,460 milljarðar evra

6. Chelsea - 2,227 milljarðar evra

7. Liverpool - 2,095 milljarðar evra

8. Arsenal - 2,008 milljarðar evra

9. Tottenham - 1,697 milljarðar evra

10. Juventus - 1,548 milljarðar evra










Fleiri fréttir

Sjá meira


×