Erlent

Hvetur til kynlífsverkfalls til að mótmæla þungunarrofslöggjöf

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Alyssa Milano hvetur til kynlífsmótmæla.
Alyssa Milano hvetur til kynlífsmótmæla. Getty/Michael Tran
Leikkonan og #metoo aðgerðasinninn Alyssa Milano hvetur konur til að taka þátt í svokölluðu kynlífsverkfalli til að mótmæla nýjum þungungarrofslögum í sem voru samþykkt í Georgíu fylki í Bandaríkjunum í síðustu viku. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þar til konur hafa lagalegt forræði yfir eigin líkama getum við ekki hætt á að verða þungaðar,“ skrifaði hún á Twitter.

Georgía setti í síðustu viku lög í gildi sem eru með þeim ströngustu þegar kemur að þungunarrofum í Bandaríkjunum, en Mississippi, Ohio og Kentucky hafa nú sett á sambærilega löggjöf. Nýju lögin kveða á um að þungunarrof sé óheimilað eftir 6. viku meðgöngu og að missi konur fóstur gætu þær þurft að sanna fyrir lögregluyfirvöldum að hafa ekki farið í ólöglegt þungunarrof.

 

Hvað felst í lögunum og hvers vegna eru þau umdeild?

Lögin segja að ekki megi framkvæma þungunarrof eftir að hjartsláttur finnist – sem, samkvæmt löggjöfum í Georgíu, er á sjöttu viku. Fæstar konur hafa á sjöttu viku gert sér grein fyrir að þungun sé til staðar, til að mynda byrjar morgunógleði ekki fyrr en á níundu viku.

Alríkisdómari gæti komið í veg fyrir að svona lög taki gildi, sem var gert í Kentucky á þeim forsendum að lögin falli ekki undir stjórnarskrána. Svipuð löggjöf sem var sett í Mississippi hefur einnig sætt mótspyrnu og er talið líklegt að alríkisdómari skoði það mál betur.

Löggjöf sem var komið á í Ohio komst ekki í gildi, var hafnað af fylkisstjóra Ohio sem beitti neitunarvaldi sínu til að koma henni frá.

Kynlífsverkfallið og Hollywood

Milano tísti á laugardag að grípa þyrfti til aðgerða, og bæði hún og myllumerkið #SexStrike vöktu mikla athygli og meira en 35 þúsund manns líkuðu við tístið og því var deilt meira en 12 þúsund sinnum. Leikkonan Bette Midler tók undir með Milano í tísti.

Margir mótmæltu þessu á netinu, bæði stuðningsmenn laganna og einstaklingar sem gerðu athugasemd við þá hugmynd að konur stunduðu aðeins kynlíf til að gera karlmönnum til geðs.

„Ég kann að meta ásetninginn, en kynlífsverkfall er slæm hugmynd byggð á kynjamisrétti,“ skrifaði einstaklingur á Twitter. „Það er eins og verið sé að meina að við veitum kynlíf sem umbun til þeirra sem eru verðugir. Það útilokar ánægju kvenna.“

 

Á meðan lagafrumvarpið var enn ekki samþykkt skrifuðu fimmtíu leikarar undir tillögu um að sniðganga kvikmynda- og sjónvarps framleiðslu fylkisins, þar á meðal voru Milano, Amy Schumer, Christina Applegate, Alec Baldwin og Sean Penn.

„Við viljum halda áfram framleiðslu í Georgíu,“ sagði í bréfinu sem fylgdi. „En við getum ekki gert það án þess að mótmæla og við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að færa iðnaðinn okkar í fylki sem er öruggara fyrir konur, ef þetta verður að lögum.“

Fleiri leikarar hafa lýst yfir stuðningi sínum, auk nokkurra framkvæmdarstjóra sjálfstæðra framleiðslufyrirtækja.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×