Innlent

Íslenskur nemandi segir árásarmanninn hafa verið ósáttan við kennara í skólanum

Sighvatur Jónsson skrifar
Tori Lára Mitchell er í tónlistarnámi við háskólann í Norður-Karólínu og er að læra á saxófón.
Tori Lára Mitchell er í tónlistarnámi við háskólann í Norður-Karólínu og er að læra á saxófón. Mynd/Tori Lára Mitchell
Tveir létust og nokkrir særðust í skotárás á svæði háskóla Norður-Karólínu í Charlotte í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Íslenskur námsmaður í skólanum segir ofsahræðslu hafa gripið um sig. Árásarmaðurinn hafi verið ósáttur við kennara í skólanum.

Skotárásin var gerð rétt fyrir klukkan sex að staðartíma nærri Kennedy Hall-byggingunni á háskólasvæðinu. Einn var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Tori Lára Mitchell er í tónlistarnámi við háskólann. Hún á íslenska móður og bandarískan föður. Tori Lára kemur til Íslands á hverjum sumri.

Hún segir að strákur við skólann hafi skotið á nemendur. Tilgangur skotárásarinnar hafi verið að vekja athygli skólayfirvalda á óánægju árásarmannsins með kennara skólans. Hann hafi samt ekki ráðist á kennara heldur nemendur.

Skotárásin var gerð klukkan sex að staðartíma í gærkvöldi.Vísir/AP
Tori Lára var annars staðar á háskólasvæðinu þegar skotárásin var gerð. Hún segir að ofsahræðsla hafi gripið um sig.

„Þetta var hræðilegt. Það var svo mikið „panic“, það var fólk sem var að deyja,“ segir Tori Lára.

Ríkisstjóri Norður-Karólínu segir að ofbeldi eigi ekki að viðgangast á háskólasvæðinu. Skoða þurfi hvernig tryggja megi að nemendur og starfsfólk þurfi ekki að óttast árásir með skotvopnum.

Skólavistinni var lokað eftir árásina en hún var opnuð aftur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×