Lífið

„Ég held að Hatari sé að gera þetta alveg rétt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Friðrik Ómar og Regína Ósk eru fyrstu gestir Júrógarðsins í ár.
Friðrik Ómar og Regína Ósk eru fyrstu gestir Júrógarðsins í ár.
Hatari stígur á sviðið í Expo-höllinni á þriðjudagskvöldið og flytur þá lagið Hatrið mun sigra á fyrra undankvöldinu en sveitin er 13. á svið.

Friðrik Ómar og Regína Ósk eru reynsluboltar þegar kemur að Eurovision og tóku þau saman þátt árið 2008 í Belgrad. Þá fluttu þau lagið This Is My Life og gerðu það algjörlega óaðfinnanlega. Þau eru fyrstu gestir Júrógarðsins árið 2019 en þátturinn var tekinn upp hér á landi í vikunni. Næstu tíu daga verður Júrógarðurinn á Vísi á hverjum degi og það frá Tel Aviv.

Friðrik og Regína fóru yfir stöðuna fyrir keppnina og eru þau bæði mjög bjartsýn á framhaldið. Bæði segja þau að Hatari fljúgi áfram í lokakvöldið. Þau voru sammála um að atriðið væri frábært og allt öðruvísi en Ísland hafi nokkur tímann sent út. Friðrik Ómar spáir Íslandi 12. sætinu og Regína Ósk 5. sæti.

Mikið hefur verið fjallað um staðsetningu keppninnar í ár.

„Þessi keppni er þetta sameiningartákn og hún verður að standa af sér allt. Fyrst þeir ætla sér alltaf að halda keppnina og engin pólitík, þá verður það bara að vera þannig. Maður skilur alveg allar þessar raddir samt en það er alltaf eitthvað fallegt við þessa keppni,“ segir Friðrik Ómar um þá staðreynd að keppnin sé haldin í Ísrael.

„Ég held að Hatari sé að gera þetta alveg rétt. Það er þannig í sögu keppninnar að það hefur engum verið vísað úr henni og það hefur ýmislegt verið sagt og gert og þeir vita alveg línuna og RÚV líka.“

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis verður með ítarlega umfjöllun frá Eurovision í Tel Aviv næstu daga. Fréttamaðurinn Stefán Árni Pálsson sér um vefþáttinn Júrógarðinn og aðra umfjöllun hér á Vísi og í fréttum Stöðvar 2 á hverjum degi í gegnum alla keppnina. Þá verður Kolbeinn Tumi Daðason einnig á svæðinu og mun hann ýmist skrifa pistla og fréttir frá Tel Aviv en Júrógarðurinn er í boði Domino´s.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.