Innlent

Kirsuberjatréð horfið úr garðinum þegar hún vaknaði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðbjörg, íbúi í Vesturbæ Reykjavík, tók eftir því í morgun að einhver hefði rifið kirsuberjatréð hennar upp með rótum og stolið því úr garðinum hennar.
Guðbjörg, íbúi í Vesturbæ Reykjavík, tók eftir því í morgun að einhver hefði rifið kirsuberjatréð hennar upp með rótum og stolið því úr garðinum hennar.
„Þetta er óvanalegt. Ég hef aldrei vitað til þess að fólk gerist svo bíræfið að fara inn í garða og stela annarra manna trjám. Ég hef bara aldrei heyrt af svona löguðu.“

Þetta segir Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, sem á heima í Hávallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur, en henni varð ljóst í morgun að einhver óprúttinn aðili hefði rifið kirsuberjatréð hennar upp með rótum og stolið því um nóttina.

„Það er bara eins og því hafi verið stungið upp og sett inn í bíl vegna þess að það er smá mold yfir gangstéttinni og svo hverfur hún bara eins og það hafi verið sett upp í bíl,“ segir Guðbjörg.

Aðspurð segist Guðbjörg telja afar ólíklegt að um skemmdarverk sé að ræða því það séu engin merki þess.

„Ég efast um að þetta tré lifi það af að vera rifið svona upp. Það er í blóma og það að fólk skuli hafa ánægju af því að setja þetta niður hjá sér, á ég bara mjög erfitt með að skilja.“

Hafi einhver frekari upplýsingar um kirsuberjatréð er viðkomandi bent á að hafa annað hvort samband við Guðbjörgu á Facebook-síðu hennar eða lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×