Erlent

Unglingsstúlkur ætluðu að myrða níu manns

Sylvía Hall skrifar
Kennari stúlknanna fann möppuna sem innihélt ítarlegar upplýsingar um morðin.
Kennari stúlknanna fann möppuna sem innihélt ítarlegar upplýsingar um morðin. Vísir/Getty
Tvær unglingsstúlkur í Avon Park-skólanum Flórída-ríki voru handteknar á miðvikudag, grunaðar um að hafa ætlað sér að myrða níu manns. Stúlkurnar eru fjórtán ára gamlar. BBC greinir frá. 

Stúlkurnar voru handteknar á miðvikudag eftir að kennari þeirra fann möppu sem innihélt ítarlegar upplýsingar um morðin. Á meðal þess sem fram kom í möppunni voru upplýsingar um hverja þær ætluðu sér að myrða, hvernig þær ætluðu að útvega sér vopn og losa sig við líkin. Þá höfðu þær einnig skipulagt hvaða fötum þær myndu klæðast. 

Mappan sem um ræðir var átta blaðsíður og hafði verið merkt með orðunum „persónulegar upplýsingar“, „ekki opna“ og „verkefni 9/11“. 

Að sögn kennarans leituðu stúlkurnar að möppunni í mikilli geðshræringu þegar þær uppgötvuðu að hún væri horfin. Þá á önnur þeirra að hafa sagt að hún myndi segja að áætlun þeirra væri einungis grín ef hún yrði spurð. 

Stúlkurnar eru nú í varðhaldi og bíða réttarhalda en þær eiga yfir höfði sér ákæru fyrir samsæri til þess að fremja níu morð og þrjú mannrán. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×