Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - HK 2-0 | Auðvelt fyrir FH í fyrsta leik

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
FH byrjaði Pepsi Max deildina vel með öruggum 2-0 sigri á HK. FH komust yfir í byrjun leik og nýliðarnir átti aldrei séns. 

 

Eftir að HK áttu sín tvö bestu færi í leiknum brunaði FH upp í skyndisókn þar sem boltinn endaði fyrir framan Jónatan Inga Jónsson. Jónatan kláraði færið vel og kom FH yfir. FH voru almennt betri í óáhugaverðum fyrri hálfleik. Það var lítið um færi en FH sýndi yfirburði í fyrri hálfleik. 

 

Jónatan Ingi átti hörkuskot sem fór rétt framhjá í upphafi seinni hálfleiks eftir að hafa fíflað Hörð Árnason vinstri bakvörð HK. FH fengu hornspyrnu eftir þetta og upp úr henni fékk Pétur Viðarsson skalla sem fór rétt yfir markið. Síðan voru HK mest megnis með boltann næstu tíu mínútur leiksins og tóku smá völdin í leiknum. 

 

Skelfileg mistook í vörn HK gerðu það að verkum að Brandur Olsen fékk boltann einn á miðjum vallarhelmingi HK. Arnar Freyr markmaður HK var staðsettur mjög framarlega og Brandur lét bara vaða. Skotið var frábært og endaði í netinu. Dýr mistök fyrir HK sem voru annars byrjaðir að setja sitt mark á leikinn. 

 

HK voru meira með boltann restina af leiknum og fengu einhver ágæt færi. Ekkert af þessum færum var nálægt því að rata markið og því var lokaniðurstaðan 2-0 sigur heimamanna. 

 

Af hverju vann FH? 

FH sköpuðu sér fleiri færi í þessum leik þrátt fyrir að vera ekki endilega mikið með boltann. Þeir spiluðu einnig mjög skipulagðan og agaðan varnarleik í dag.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Jónatan Ingi Jónsson var maður leiksins í dag. Hann skoraði fyrsta markið og var alltaf ógn þegar hann fékk boltann á hægri kantinum. Hann var ekki alltaf í liðinu hjá FH í fyrra en hann gæti verið mikið vopn fyrir þá ef hann spilar sig almennilega inn í liðið í sumar. 

 

Brandur Olsen var mikil ógn í dag þegar hann nennti því. Það verður spennandi að fylgjast með honum í sumar. FH vörnin var virkilega örugg í sínum aðgerðum í dag. Þeir gerðu engin stór mistök og héldu þannig hreinu laki í fyrsta leik sumarsins. 

 

Hvað gekk illa? 

Einbeitingarleysið í HK vörninni var mikið í mörkunum tveimur. Í Inkasso deildinni er hægt að gera svona mistök en það gengur ekki í deild þeirra bestu. 

 

HK gekk illa að skapa sér færi þegar FH lágu tilbaka í seinni hálfleik. Það er auðvitað erfitt að skapa sér færi á móti þessari þaulreyndu FH vörn en það vantar samt einhvern sprengikraft inn í HK liðið.

 

Hvað gerist næst? 

Bæði lið spila í Mjólkurbikarnum á verkalýðsdaginn. HK taka á móti Fjarðarbyggð í Kórnum á meðan FH eiga aðeins erfiðara verkefni en þeir fara á Origo-völlinn. 

 

Í deildinni fá HK síðan Blika í heimsókn á laugardaginn í grannaslag af bestu gerð. FH fara á heimavöll hamingjunnar næst komandi mánudag og spila við Víking frá Reykjavík. 

 

Ólafur: Erum með lið sem vill keppa við Val

„Ég er ánægður með sigurinn og spilamennskuna mest megnis af leiknum. Auðvitað eru kaflar sem við hefðum viljað nýta betur,” sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH ánægður eftir leik dagsins. 

 

„HK er með mjög skipulagt lið og í stöðunni 1-0 biðu þeir svolítið. Þeir vissu að þeir gætu komið sér aftur inn í leikinn en ég var rólegri eftir annað markið. Við verjumst ágætlega þeim áhlaupum sem HK komu með og það er gott að byrja mótið á 2-0 sigri.” 

 

HK voru meira með boltann í seinni hálfleik en Óli var ekki að hafa áhyggjur af því. 

 

„Miðað við hvernig leikurinn endaði þá er allt í lagi þó þeir hafi verið með boltann eitthvað.” 

 

Steven Lennon og Davíð Þór Viðarsson byrjuðu báðir á bekknum hjá FH í dag. Steven Lennon kom inná en Davíð sat allan leikinn. Þeir eru búnir að vera að glíma við meiðsli á undirbúningstímabilinu og eru að spila sig aftur inn í liðið. 

 

„Þeir eru hvorugur búnir að spila núna í 6 vikur. Þú hoppar ekkert inn í byrjunarliðið án þess að hafa verið að spila eitthvað. Þeir eru ekki komnir í form. Það er búið að vera smá eymsli á þeim og þeir eru ekki komnir í leikform. Við þurfum að gefa þeim mínútur hér og þar til að koma þeim í stand.” 

 

FH voru með völdin mest allan fyrri hálfleikinn og skoruðu í honum glæsilegt mark. 

 

„Í fyrri hálfleik voru kaflar sem voru fínir. Við vorum að leysa okkur ágætlega út úr pressunni þeirra. Við sköpuðum færi og gerðum frábært mark í fyrri hálfleik. Fyrra markið var virkilega vel spilað.” 

 

HK fengu fullt af föstum leikatriðum en sköpuðu sér aldrei færi úr þeim. FH vörnin var virkilega örugg í dag og hleyptu HK aldrei í þær stöður sem þeir vildu. 

 

„Við vörðumst föstum leikatriðum HK mjög vel. Við fengum ekki á okkur skyndisóknir. Úrslitin að fara með 3 stig út úr leiknum, skora.2 mörk og fá ekkert á sig er frekar jákvætt myndi ég segja.” 

 

Brandur Olsen skoraði frábært mark langt utan af velli til að koma FH í 2-0. Brandur vann boltann og var mjög fljótur að átta sig á að hann gæti skotið strax.

 

„Hann er með ágætis spyrnufót. Hann sá að markmaðurinn var framarlega þegar hann vinnur boltann og var fljótur að átta sig. Virkilega góð mörk hjá okkur í dag.” 

 

FH fara á Origo-völlinn á miðvikudaginn þar sem þeir spila við Val í Mjólkurbikarnum. 

 

„Ég er mjög svo spenntur fyrir þessum leik. Þetta er verðugt verkefni, við erum með lið sem að vill keppa við Val. Það verður bara virkilega skemmtilegt fyrir okkur að spila við þá.” 

 

Brynjar: Fólk þarf að fara að kaupa miða núna ef það ætlar að mæta

„Mér fannst frammistaðan vera nokkuð góð. Við settum þá undir nokkuð góða pressu og unnum boltann oft á góðum stöðum. Við sofnuðum á verðinum þarna einu sinni í fyrri hálfleik og síðan fannst mér þeir þurfa að hafa full lítið fyrir öðru markinu,” sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK um frammistöðu sinna manna í leiknum. 

 

HK voru mikið með boltann í seinni hálfleik en áttu erfitt með að skapa sér færi. 

 

„Við vorum að spila á móti góðu liði og þá er oft erfitt að skapa færi. Við áttum töluvert af hornum og aukaspyrnum. Við erum vanir að fá aðeins meira út úr því. Heilt yfir fannst mér við vera inni í leiknum og við áttum séns. Jafnvel í stöðunni 2-0 hafði ég trú á að við myndum sækja eitt mark eða jafnvel jafna leikinn.” 

 

Brandur Olsen skoraði annað mark leiksins eftir slæm mistök í vörn HK. Brynjar er sannfærður um að það verði ekki fleiri svona mörk í sumar.

 

„Það verða ekki fleiri svona mörk. Þetta voru ein mistök og við tökum það. Það þarf að klára færið og það var gert gríðarlega vel. Það eru bara góðir leikmenn sem gera það.” 

 

HK byrja tímabilið á að spila á móti FH, Breiðablik og Stjörnunni. Þetta er ekki auðveldasta prógrammið til að byrja sumarið á en Brynjar hefur ekki áhyggjur af því. 

 

„Þetta er bara gott. Þetta var erfiður en frábær leikur í dag. Þetta er svona leikur sem við getum unnið en við getum líka tapað. Ég geri alltaf ráð fyrir að við vinnum.” 

 

HK fá granna sína í Breiðablik í heimsókn í næsta leik. Þetta ætti að vera grannaslagur af bestu gerð og Brynjar gerir ráð fyrir að Kópavogsbúar munu fjölmenna. 

 

„Ég geri ráð fyrir rúmlega fullum kór. Fólk þarf að fara að kaupa miða núna ef það ætlar að mæta. Maður er bara spenntur fyrir fyrsta heimaleik HK í efstu deild í 11 ár.”



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira