Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Leikmennirnir eru frábærir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhannes Karl hrósaði sigri í sínum fyrsta leik sem þjálfari í efstu deild.
Jóhannes Karl hrósaði sigri í sínum fyrsta leik sem þjálfari í efstu deild. vísir/anton
„Við gerðum þetta virkilega vel. Við lögðum áherslu á að spila sterkan varnarleik og allir leikmennirnir, frá þeim fremsta til þess aftasta, sinntu varnarskyldunni vel. Svo vorum með hættulegir fram á við og sköpuðum fullt af færum. Að mínu mati hefði sigurinn getað orðið stærri,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, eftir sigurinn á KA í dag, 3-1.

Aðspurður sagði Jóhannes Karl að markið sem ÍA fékk á sig undir lok fyrri hálfleiks ekki breytt neinu um það hvernig hann lagði seinni hálfleikinn upp.

„Nei, í raun og veru ekki. Við vorum með yfirhöndina svo það þurfti ekki að breyta neinu. Það var mjög pirrandi að fá þetta mark á sig en það breytti engu um nálgun okkar fyrir seinni hálfleikinn,“ sagði Jóhannes Karl.

Hann spilaði með þrjá miðverði í leiknum í dag, líkt og KA gerir venjulega.

„Við höfum spilað tvær leikaðferðir í vetur. Þessi leikaðferð hentar okkur mjög vel en getum líkað spilað fleiri útfærslur. En ég held að skipti engu hvaða leikaðferð við spilum því leikmennirnir eru frábærir,“ sagði Jóhannes Karl sem hrósaði tveggja marka manninum Tryggva Hrafni Haraldssyni í hástert fyrir hans frammistöðu.

„Allir í sóknarlínunni okkar eru með mikla hæfileika. En Tryggvi býr yfir svo miklum gæðum og vinnur líka vel og er hörkuduglegur. Það er frábært að vera búnir að fá svona öflugan leikmann til okkar,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×