Erlent

Segir Skota þurfa að taka völdin á ný

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nicola Sturgeon, leiðtogi SNP.
Nicola Sturgeon, leiðtogi SNP. Fréttablaðið/Ernir
Breskt þingræði er í lamasessi og því þurfa Skotar sjálfir að taka ákvörðun um framtíð þjóðarinnar. Þetta sagði Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP) og fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, á landsfundi flokksins í gær.

„Atburðarás síðustu þriggja ára hefur leitt það í ljós, og það er hafið yfir allan vafa, að í augum Skotlands er Westminster-kerfið ekki að virka,“ hafði Reuters eftir Sturgeon.

Skoski leiðtoginn bætti því svo við að nú væri það undir SNP komið að afla meiri stuðnings fyrir sjálfstæði. „Og að tryggja það að stjórnvöld í Westminster geti ekki staðið í vegi fyrir rétti Skota til þess að taka þessa ákvörðun.“

Stuðningur við sjálfstætt Skotland er nú sá mesti frá árinu 2015, samkvæmt nýrri könnun YouGov. Alls segjast 49 prósent Skota vilja lýsa yfir sjálfstæði frá Bretlandi. 51 prósent er andvígt sjálfstæði og munurinn því afar lítill.

Ef litið er til könnunar YouGov frá því í júní í fyrra má sjá að staðan hefur breyst nokkuð. Þá sögðust 45 prósent fylgjandi sjálfstæði en 55 prósent sögðu nei. Greinendur YouGov vilja meina að hægt sé að rekja þessa þróun til sívaxandi óánægju Skota með gang mála í útgöngumálum, en meirihluti Skota lagðist gegn útgöngu úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×