Skoðun

Ellilífeyrisþegar komi að kjarasamningum

Kári Jónasson skrifar
Nú þegar alda kjarasamninga gengur yfir, bæði hjá ASÍ – félögum og senn hjá mörgum félögum opinberra starfsmanna, þá vaknar spurningin um hver semji fyrir ellilífeyrisþega þessa lands. Einfalda svarið við þessu er að það semur enginn fyrir þennan stóra hóp landsmanna. Við erum sem sagt í flokki með ungbörnum og grunnskólanemum, með allri virðingu fyrir þeim.

Samkvæmt skilgreiningu OECD teljast þeir aldraðir sem hafa náð 65 ára aldri, en hér er hins vegar miðað við 67 árin.

Mér telst til að hér á landi séu rösklega 43 þúsund einstaklingar sem eru 67 ára og eldri. 12.500 manns á aldrinum 67 ára til sjötugs og tæplega 19 þúsund á milli sjötugs og áttræðs.

Ástæðan fyrir því að ég er með þessa talnaleikfimi er sú, að margir þessara rúmlega 30 þúsund einstaklinga eru enn í fullu fjöri og meðal þeirra eru margar vinnufúsar hendur, en það má segja að hið opinbera hafi slegið á puttana á þeim vegna óskiljanlegra reglna um frítekjumark og áhrif þess á ellilífeyri. Í dag mega ellilífeyrisþegar hafa 1,2 milljónir í tekjur á ári án þess að það hafi áhrif á útreikning varðandi ellilífeyri. Þeir sem hafa meira en rúmlega 557 þúsund krónur í tekjur á mánuði fá hins vegar ekkert frá Tryggingastofnun og greiða að sjálfsögðu skatta og skyldur af sinni innkomu eins og aðrir þegnar þessa lands og eru hreinlega gullnáma fyrir „skattmann“, því hann þarf ekki að láta neitt af hendi rakna til þeirra.

Það eru hins vegar þeir sem gætu auðveldlega aflað sér meiri tekna en þessarar rösklega einnar milljónar á ári, sem brýna nauðsyn ber til að gera auðveldara að vinna meira, án þess að ellilífeyrir þeirra skerðist. Þeir munu að sjálfsögðu greiða sína skatta og skyldur af tekjum sínum eins og aðrir, en þá vantar tilfinnanlega einhvern til að semja fyrir sig. Fulltrúar þessa hóps og annarra ellilífeyrisþega ættu að vera einhvers staðar við kjarasamningaborðið, en ekki láta skammta sér úr hnefa eins og hingað til. Þetta er sanngjörn krafa tugþúsunda kvenna og karla.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×