Innlent

Secret Solstice í biðstöðu í borgarráði fram yfir páska

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Secret Solstice tónlistarhátíðinni í Laugardalnum.
Frá Secret Solstice tónlistarhátíðinni í Laugardalnum. Vísir/Jóhanna
Mál tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice var ekki tekið fyrir á borgarráðsfundi í dag og mun ráðið því ekki fjalla um málið fyrr en eftir páskafrí. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir málið þó hafa verið rætt óformlega og að allir vilji finna lausn á því.

Fjárhagsvandræði Secret Solstice hafa verið áberandi í fjölmiðlum í vikunni. Bandaríska rokkhljómsveitin Slayer, sem var eitt aðalnúmera á Secret Solstice í fyrra, stefndi hátíðinni fyrir að hlunnfara sig um sextán milljónir króna, eða 133 þúsund Bandaríkjadali. Þá skuldar hátíðin Reykjavíkurborg rúmar tíu milljónir króna en Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs tjáði RÚV að málið yrði tekið fyrir á borgarráðsfundi í dag.

Það var hins vegar ekki gert. Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir í samtali við Vísi að Secret Solstice hafi þó verið rætt óformlega á fundinum. Málið sé í höndum meirihlutans en allir vilji að sjálfsögðu leysa það ef hægt er. Ómar Einarsson sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur segir í samtali við Vísi í dag að ekkert nýtt sé að frétta af stöðu hátíðarinnar að sér vitandi.

Þórdís Lóa sagði í samtali við RÚV um helgina að Secret Solstice yrði ekki haldin í Reykjavík ef skuldir hátíðarinnar yrðu ekki gerðar upp. Hún hefur ekki svarað ítrekuðum símtölum fréttastofu vegna málsins í vikunni.

Greint var frá því í gær að viðræður milli Live Events, aðstandenda Secret Solstice, og rekstraraðila Fákasels í Sveitarfélaginu Ölfusi um að halda hátíðina. Víkingur Heiðar Arnórsson framkvæmdastjóri Live Events kveðst ætla að svara skriflegri fyrirspurn fréttastofu um málið síðar í dag.


Tengdar fréttir

Til skoðunar að halda Secret Solstice í Ölfusi

Viðræður eru hafnar á milli stjórnenda tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice og rekstraraðila Fákasels á Ingolfshvolium að tónlistarhátíðin verði mögulega haldin þar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×