Erlent

Sonur lögregluþjóns grunaður um þrjár íkveikjur

Samúel Karl Ólason skrifar
Kveikt var þremur kirkjum í Opelousas á tíu dögum.
Kveikt var þremur kirkjum í Opelousas á tíu dögum. AP/Leslie Westbrook
Lögreglan í Opelousas í Lousiana í Bandaríkjunum hefur handtekið son lögregluþjóns sem grunaður er um að hafa kveikt í þremur kirkjum, sem sóttar eru af þeldökkum íbúum, á tíu dögum. Sá grunaði heitir Holden Matthews og er 21 árs gamall. Faðir hans hjálpaði til við handtökuna.

Eric Rommal, frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna, segir yfirvöld sannfærð um að rétti sökudólgurinn sé í haldi. Notast var við upptökur úr öryggismyndavélum og kvittun frá Walmart til að finna Matthews og handtaka hann í gær. Samkvæmt AP fréttaveitunni var óttast að hann ætlaði sér að kveikja í fleiri kirkjum og því var mikið kapp á að finna hinn seka.



Lögreglan hefur ekki viljað kalla íkveikjurnar hatursglæp en segir að verið sé að kanna tilefni þeirra.

Brunninn bensínbrúsi fannst á vettvangi einnar íkveikjunnar og tókst að rekja hann til Walmart og þaðan til Matthews, þar sem hann keypti brúsann, kveikjara og ýmislegt fleira með eigin debetkorti, þremur tímum fyrir fyrstu íkveikjuna. Þá sýndu gögn úr farsímaturnum að hann var á í það minnsta nálægt öllum íkveikjunum.

Fógetinn Bobby Guidroz sagði AP fréttaveitunni að faðir Matthews hefði verið miður sín þegar honum var tilkynnt að sonur hans væri grunaður. Þá sagði Guidroz að faðir Matthews hefði sent hann á stað þar sem auðvelt væri að handtaka hann, án þess að fara nánar út í það.

Hámarksrefsing fyrir að kveikja í bænahúsi er fimmtán ár, þannig að sú hámarksrefsing sem Matthews stendur frammi fyrir er 45 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×