Viðskipti innlent

Taconic kaupir í Arion fyrir 6,5 milljarða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Arion í Borgartúni. FBL/Stefán
Kaupskil ehf., þrotabú gamla Kaupþings, hefur gengið frá sölu á 5 prósentum í Arion banka til vogunarsjóðsins Taconic Capital. Alls er um að ræða 90,7 milljónir hluta og er söluverðið 41,8 milljónir punda, rúmlega 6,5 milljarðar króna. Kaupin voru því gerð á genginu 72 krónur á hlut sem er einu prósenti meira en lokagengi bréfanna þann 4. apríl síðastliðinn, daginn sem samið var um viðskiptin.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka til Kauphallarinnar að eftir viðskiptin eigi Kaupskil enn 362,771,629 hluti í bankanum, sem jafngildir um 18,14 prósentum. Taconic átti 9,99 prósenta hlut í Arion fyrir viðskiptin en fer með 14,53 prósent í dag samkvæmt eigendaskráningu bankans. Sérstaklega er tekið fram í tilkynningunni að Arion hagnist ekkert á viðskiptunum.

Gengi hlutabréfa Arion hefur lækkað um rúmt 1,1 prósent það sem af er degi í rúmlega 6,6 milljarða viðskiptum.

Kaupþing gekk frá sölu á um 10 prósenta hlut í Arion banka í síðustu viku. Alls var um 200 milljón hluti að ræða og nam söluverðið 14 milljörðum. Því fóru þau viðskipti fram á genginu 70 krónur á hlut.


Tengdar fréttir

Sjóðir Eaton Vance seldu fyrir nærri þrjá milljarða

Sjóðir Eaton Vance hafa undanfarna fimm mánuði selt í skráðum félögum fyrir nærri þrjá milljarða króna en keypt á sama tíma í Arion banka og Eimskip fyrir um milljarð króna. Staða þeirra í ríkisskuldabréfum hefur aukist.

Stoðir með um 4,5 prósenta hlut í Arion

Fjárfestingafélagið Stoðir keypti um þriðjung af þeim tíu prósenta hlut sem Kaupþing seldi í síðustu viku. Er nú orðinn stærsti íslenski hluthafi bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×