Innlent

Ein flugvél situr eftir á Keflavíkurflugvelli

Andri Eysteinsson skrifar
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm
Veðrið hefur sannarlega haft áhrif á flugsamgöngur frá Keflavíkurflugvelli, farþegar í átján flugvélum Icelandair sátu fastir í flugvélum og þurft að bíða eftir því að komast frá borði. Nú hefur stór hluti farþega komist frá borði.

Fyrr í dag sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að um tvöleytið hafi notkun landganga verið hætt vegna hvassviðrisins. Vindstyrkur hafði þá farið yfir viðmið sem eru 50 hnútar.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að nú hafi stærstur hluti farþegar verið fluttur frá borði en ein vél stendur eftir.

Icelandair notaði í fyrstu eitt flugvélastæði í skjóli til þess að koma farþegum frá borði. Hraðað var á ferlinu þegar annað stæði bættist við.

Vegna veðursins hefur öllu flugi Icelandair, sem áætluð voru í kvöld, aflýst. Um er að ræða 14 flug, þar af 13 Ameríkuflug.

Einhverjir farþegar hafa gripið til þess ráðs að tjá sig um málið á Twitter, en Ásdís segir Icelandair vera að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma til móts við farþega.

Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson fjallar stuttlega um ástandið í færslu á Facebook síðu sinni, þar segir Einar að vindurinn hafi klukkan 21:30 náð 47 hnútum og 62 í hviðum. Þá segir hann að lægja muni eftir miðnætti en vindur taki sig upp að nýju á morgun.

Einar segist einnig vera nokkuð viss að um mesta rask á flugi sé að ræða frá sunnudeginum 11. apríl 2011. Þá var veðurofsinn svo mikill að meðal annars kom gat á flugskýli í Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×