Viðskipti innlent

Segir Kárahnjúkavirkjun verða hryggjarstykki auðlindasjóðs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur um orkumál, rekur ráðgjafafyrirtækið Askja Energy.
Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur um orkumál, rekur ráðgjafafyrirtækið Askja Energy. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Kárahnjúkavirkjun á eftir að skila geysilegum arði og verða hryggjarstykkið í auðlindasjóði þjóðarinnar, að mati Ketils Sigurjónssonar, sérfræðings um orkumál, sem telur að þrátt fyrir neikvæð umhverfisáhrif geti Íslendingar verið stoltir af þessu mikla mannvirki. Rætt var við Ketil í fréttum Stöðvar 2. 

Tólf ár eru frá því Kárahjúkavirkjun hóf raforkuframleiðslu en hún var afar umdeild. Andstæðingar fjölmenntu meðal annars fyrir utan Ráðhúsið í Reykjavík í ársbyrjun 2003 til að krefast þess að borgin, sem 45 prósent eigandi Landsvirkjunar á þeim tíma, losaði sig undan fjárhagslegri ábyrgð á virkjuninni enda myndu allir tapa á henni, samkvæmt því sem stóð á mótmælaspjöldum.

Frá Kárahnjúkastíflu. Hálslón varð til vegna stíflunnar. Framkvæmdin er einhver sú umdeildasta sem ráðist hefur verið í hérlendis.Vísir/Pjetur.
„Þetta var auðvitað virkjun sem hafði margvísleg umhverfisáhrif og kannski ekki skrítið að hún fengi neikvæð viðbrögð út af því. En á móti kemur að hún skilar miklum tekjum,“ segir Ketill. 

„Að vísu er það þannig að upphaflegi samningurinn hljóðaði upp á mjög lágt verð. Þannig að Alcoa má mjög vel við una við verðið fyrstu um það bil 20 ár samningstímans.“ 

Ketill, sem rekur sjálfstæða ráðgjöf um orkumál, bendir á það í grein í Kjarnanum að orkusamningurinn við álver Alcoa á Reyðarfirði komi líklegast til endurskoðunar árið 2028.

Álver Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði.vísir/valli
„Og miðað við yfirlýsingar Landsvirkjunar upp á síðkastið þá er greinilegt að Landsvirkjun gerir ráð fyrir því að orkuverðið hækki mikið í þeim samningi árið 2028“. 

Kárahnjúkavirkjun er langstærsta vatnsaflsvirkjun landsins og stendur undir um þriðjungi af orkuframleiðslu Landsvirkjunar. 

„Þá eiginlega blasir við að virkjunin mun skila geysilegum arði frá og með 2028 og vera algjört hryggjarstykki í auðlindasjóði, sem mér sýnist að stjórnvöld stefni mjög ákveðið að.“

Úr stöðvarhússhvelfingu Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Hún er langstærsta vatnsaflsvirkjun landsins.vísir/gva
Ketill kveðst þó ekki geta svarað því hvort viðhorfin til Kárahnjúkavirkjunar eigi eftir að breytast. 

„Þrátt fyrir umhverfisáhrifin, sem voru af þessu, og mörg hver mjög eflaust neikvæð, að þá held ég að Íslendingar geti verið mjög stoltir af þessari virkjun. Þetta er glæsilegt mannvirki og þetta er stærsta vatnsaflsvirkjun í Evrópu, fyrir utan Rússland. Þetta var meiriháttar projekt og það tókst mjög vel til,“ segir Ketill.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Landsvirkjun fékk milljarð á mánuði frá Kárahnjúkum

Sérfræðingur á sviði orkumála áætlar að Landsvirkjun hafi á síðasta ári fengið nærri tólf milljarða króna frá Alcoa-Fjarðaáli í sölutekjur af orku Kárahnjúkavirkjunar, eða um einn milljarð króna á mánuði.

Arður Landsvirkjunar komi í stað veggjalda fyrstu árin

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að engin ákvörðun liggi fyrir um veggjöld og varpar því fram hvort skynsamlegra sé að nota arðgreiðslur Landsvirkjunar í uppbyggingu vegakerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×