Viðskipti erlent

Fyrrverandi forstjóri Volkswagen ákærður

Kjartan Kjartansson skrifar
Winternkorn stýrði Volkswagen þegar útblásturssvindl fyrirtækisins komst upp.
Winternkorn stýrði Volkswagen þegar útblásturssvindl fyrirtækisins komst upp. Vísir/EPA
Þýskir saksóknarar hafa ákært Martin Winterkorn, fyrrverandi forstjóra bílaframleiðandans Volkswagen, vegna útblásturshneykslisins sem skók þýskan bílaiðnað. Volkswagen varð uppvíst að því að svindla á útblástursprófum til að fela raunverulega mengun dísilbíla.

Auk Winterkorn eru fjórir aðrir stjórnendur fyrirtækisins ákærðir, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Winterkorn er ákærður fyrir svik, trúnaðarbrest og brot á samkeppnislögum fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða eftir að ljóst varð að fyrirtækið hefði svindlað á útblástursprófum í Bandaríkjunum.

Hann hafi hvorki tilkynnt yfirvöldum um að fyrirtækið hefði notað ólöglegan hugbúnað til að svindla né komið í veg fyrir að hann væri settur upp í nýjum bílum. Fyrir vikið hafi Volkswagen verið dæmt til að greiða enn hærri sektir í Bandaríkjunum og Evrópu en ella.

Winterkorn er einnig ákærður vegna svindlsins í Bandaríkjunum. Hann býr í Þýskalandi sem framselur ríkisborgara sína yfirleitt ekki til Bandaríkjanna. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Hneykslið hefur þegar kostað Volkswagen um 29 milljarða evra, jafnvirði um 4.000 milljarða íslenskra króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×