Innlent

Sleggjan í Fjöl­skyldu­garðinn og hring­ekjan gerð upp

Atli Ísleifsson skrifar
Hringekjan hefur þurft að þola íslenskra veðráttu í um tuttugu ár og er kominn tími á andlitslyftingu.
Hringekjan hefur þurft að þola íslenskra veðráttu í um tuttugu ár og er kominn tími á andlitslyftingu. Vísir/Atli

Gestir Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hafa tekið eftir að lítið er eftir af hringekjunni sem staðið hefur í garðinum síðustu ár og áratugi. Þorkell Heiðarsson, framkvæmdastjóri garðsins, segir að verið sé að gera hringekjuna upp og að mikið standi til í garðinum á næstu mánuðum.



Þorkell segir að þannig verði Sleggjan, sem var eitt helsta aðdráttarafl Smáratívolís í Smáralind sem nýverið lokaði, sett saman og opnuð í Fjölskyldugarðinum í sumar.



Hann segir að ákveðið hafi verið að taka hringekjuna í Húsdýragarðinum í sundur og gera hana upp þar sem hún hafi verið mjög slitin. „Hún var smíðuð fyrir um tuttugu árum og er búin að standa úti og þola íslenska veðráttu síðan. Hún var því orðin mjög illa farin og er verið að taka hana í gegn.“



Þorkell segir að hringekjan hafi verið tekin í sundur og einingar sendar til framleiðandans á Ítalíu þar sem þær eru málaðar upp á nýtt. Verði hringekjan svo sett saman á ný og standi vonir til að það gerist í maí, fyrir sumarvertíðina. „Það fer eftir því hvernig gengur að gera við þessa hluti úti.“

Sleggjan svokallaða í Smáratívolíi.Smáratívolí

Á nýjan stað

Þorkell segist gera ráð fyrir að hringekjan verði flutt úr Húsdýragarðinum og í Fjölskyldugarðinn þar sem alltaf stóð til að hún ætti að vera. Hringekjunni hafi upphaflega verið komið fyrir við hlið hestagerðisins í garðinum til bráðabirgða þar sem hún svo ílengdist.



Ráðist var í miklar framkvæmdir í Fjölskyldugarðinum á síðasta ári þar sem nýr fallturn var meðal annars opnaður, ökuskólinn tekinn í gegn og nýr leikkastali settur saman. Þorkell segir að áframhald verði í sumar. 



„Við höldum áfram í sumar og munum leggja nokkra áherslu á svæði sem hefur verið að koðna niður á síðustu árum, þar sem torfærubílarnir voru hér áður fyrr.“



Hann segir að með komu Sleggjunnar og nýjum fallturni sé verið að svara kalli um að höfða betur til eldri barna og unglinga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×