Innlent

Varað við hvassviðri á Suðausturlandi fram yfir hádegi

Kjartan Kjartansson skrifar
Spáð er éljum og hvassviðri sums staðar á landinu í dag.
Spáð er éljum og hvassviðri sums staðar á landinu í dag. Fréttablaðið/Eyþór
Hvassa norðan- og norðvestanátt gerir nú austantil á Suðurausturlandi en draga á úr vindi eftir hádegi og stytta upp. Á höfuðborgarsvæðinu er einnig spáð nokkuð hvössu, 8-15 metrum á sekúndu. Létta á til og draga úr vindi eftir hádegi.

Á vef Veðurstofunnar er gert ráð fyrir norðan 10-18 metrum á sekúndu og éljum um landið norðanvert í dag. Mun hvassara er spáð í vindstrengjum suðaustantil. Víða verður léttskýjað sunnan- og vestanlands og frost á bilinu núll til fimm stig. Spá er breytilegri átt, 5-13 metrar á sekúndu í kvöld og að mestu léttskýjuðu og kólnandi veðri.

Vegagerðin segir á vefsíðu sinni nú í morgun að vegirnir yfir Hellisheiði og Holtavörðuheiði séu lokaðir, sá fyrrnefndi vegna slæms skyggnis á kafla en sá síðarnefnda vegna bíls sem lokar veginum.

Á morgun er gert ráð fyrir að gangi í sunnan 10-18 metra á sekúndu með rigningu eða slyddu á köflum. Norðaustan- og austantil er spáð hægara og þurrara veðri. Hitinn á að vera á bilinu eitt til sex stig síðdegis en vægt frost verður austantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×